29.07.1914
Efri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

16. mál, beitutekja

Karl Finnbogason:

Háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) hóf mál sitt með því að tala um flugur. Kallaði breytingartillögur okkar háttv. þm. Barðstrendinga (H. Kr.) flugur, og kvaðst vilja slá báðar í einu höggi. Jeg get ekki að því gjört, þótt háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) sjái flugur og berjist við flugur. En máltæki því sem hann fór með til að ósanna mál mitt : „Maður er manns gaman“, vil jeg að eins svara með öðru samskonar: „Margur hyggur auð í annars garði“. Og því vil jeg bæta við, að jeg hugði meiri auð máls og skilnings á því í garði háttv. þm. en mjer verður raun á. Jeg mun ekki að þessu sinni leggja hans „juridisku persónu“ í einelti. En sæmra hygg jeg að hafa Hávamál sjer til fyrirmyndar, er rita skal íslensku –jafnvel íslensk lög, — heldur en það hálflatneska hrognamál, sem sumum þykir svo gaman að sletta í tíma og ótíma hjer á þingi — og annarsstaðar — að eins til að sýna, að þeir sjeu „lærðir“.