25.07.1914
Efri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

10. mál, afnám fátækratíundar

Guðmundur Björnsson:

Jeg skal ekki tefja fund með langri ræðu í þetta sinn Hv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.) sagði, að þetta væri ekki stórmál. Það er satt að því leyti, að sveitasjóðina munar lítið um þennan tekjustofn. Það mun og satt vera að þessi skattur komi ekki sem jafnast niður á mönnum. Af þessu er svo dregin sú ályktun, að hann eigi að detta úr sögunni.

Eigi að síður get jeg ekki að því gjört að mjer finst þetta mál að einu leyti vera stórmál. Það er enginn hversdagsviðburður, að nema úr gildi landslög, sem þjóðin hefir haldið trygð við í nærfelt 1000 ár. Þetta eru síðustu leyfar vorra fornu tíundarlaga; þau voru sett á ofanverðri 11. öld. Það getur vel verið, að rjett sje að afnema. í fátækratíundina. En þess ber að minnast, að hjer er verið að færa til grafar eina af elstu minjunum í íslenskri löggjöf. Það kalla jeg ekki smáræði, heldur stórræði.

Jeg vek ekki athygli á þessu eingöngu vegna tíundarlaganna, heldur og vegna þess, að á síðari árum hefir svo mörgu öðru, er snertir þjóðlíf vort, hugsunarhátt og venjur, verið varpað burt, hugsunarlítið, að því er virðist, óðar en eitthvað nýtt hefir verið í boði. Það gamla hefir umsvifalaust orðið að þoka hjer fyrir nýjungunum. Með öðrum orðum: þjóðrækni vor virðist standa á mjög völtum fótum. Þetta er má ske óþörf viðkvæmni; en mínu íslenska lunderni er nú þannig háttað, að mjer sárnar þetta oft og tíðum. En þetta eiga nú má ske að vera hyggindi, þessar fljótráðnu breytingar. En þegar litið er á hver hyggindi best í hag koma, þá veit jeg fyrir víst, að það er óráðlegt að kasta burt hverri fornri venjunni á fætur annari, án þess að íhuga fyrst, hvort ekki felist einhver góð taug í því gamla, sem vert sje að halda, rjettara að breyta og bæta en að brjóta og bramla. Jeg get ekki sagt, að þetta tal mitt frá almennu sjónarmiði eigi sjerstaklega vel við þetta litla frv. En ekki hefi jeg orðið þess var, hvorki hjer nje í hv. Nd., að orði hafi verið vikið að því, hvort ekki kynni að vera eitthvað gott í þessum fornu lögum, sem hægt væri að hagnýta. Rækileg rannsókn kynni að leiða það í ljós, að rjettara væri að breyta tíundarlögunum og bæta þau en að kasta þeim með öllu. Mundi hv. deild nú ekki vilja hefja þessa rannsókn.

Jeg enda svo mál mitt með því, að jeg tel mig hafa haldið ljelega líkræðu yfir okkar gömlu og góðu tíundarlögum, ef hv. deild vill engan gaum gefa tillögu minni.