25.07.1914
Efri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

10. mál, afnám fátækratíundar

Steingrímur Jónsson :

Háttv. 6. kgk. (G. B.) sagði, að hjer væri um merkilegar fornmenjar að ræða, sem væri dálítið athugavert og alvarlegt að fleygja frá sjer. Jeg er honum sammála um það, að hjer er um mjög merkilegan forngrip að ræða, en við verðum líka að líta á hvernig þessi forngripur lítur nú út, eins og við erum búnir að fara með hann í 9 aldir. Jeg held að þegar við athugum þetta, muni dálítið breytast álit okkar á honum, því að nú eru ekki eftir nema rústir af þessum merkilega forngrip. Það er rjett, sem háttv. þingm. Skagf (J. B.) sagði, að það er ekki í dag, sem um það er að ræða, hvort afnema beri tíundina, heldur var það þegar prests- og kirkjutíundin var afnumin, því að þá var höggvið það skarð í tíundina, að hún hlaut að falla von bráðar.

Það er fleira, sem gjörir að þessi forngripur er orðinn svo hrörlegur, svo sem það, að undirstaðan er orðin mjög breytt. Það er öllum kunnugt, hve jarðabókin frá 1861 er orðin ósanngjörn sem undirstaða undir skattgjaldi. Lausafjártíundin hefir ávalt verið óvinsæl, og sem grundvöllur fyrir skattgjaldi er hún alt önnur nú en hún var fyrir 20–30 árum, að jeg ekki tali um fyrir 50–60 árum. Og mjer finst, að við verðum að líta á það, að þessar tíundarleyfar eru bygðar á algjörlega óhæfilegum og ósanngjörnum grundvelli.

Jeg hefði gjarnan viljað að öll tíundin hefði verið lögð til fátækra árið 1907, þegar prests- og kirkjutíundin var afnumin. Því jeg lít svo á, að nauðsyn beri til að breyta bráðlega skattgjaldi til sveitasjóðanna í þá átt, að þeir fái sem mest fasta skatta í staðinn fyrir aukaútsvörin, sem jafnað er niður af handahófi. Og jeg vona að afnám fátækratíundarinnar stuðli að því að knýja þá breytingu fram.