04.08.1914
Efri deild: 31. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Framsögum. meiri hlutans (Jósef Björnsson):

Frumvarp það, sem hjer liggur fyrir, er breyting á lögum þeim um sauðfjárbaðanir, er seinasta þing samþykti.

Aðalbreytingin, sem farið er fram á, er að taka af stjórninni skylduna, er á hana er lögð með lögunum, að útvega árlega nægileg baðlyf fyrir landið, og annast um að þau verði flutt á þær hafnir, sem hreppsnefndir æskja.

Þegar lögin voru samþykt í fyrra, var það hugmyndin, að leggja kaup á öllum baðlyfjum handa landinu undir einn hatt, að jeg komist svo að orði. Var búist við því, að á þennan hátt mundi hægt að fá baðefnið ódýrara en ef einstakir menn eða einstök sveitafjelög keyptu það hvert fyrir sig. Það er heldur ekki hægt að hafa á móti því, að svona setti það að vera. En sú hefir reyndin orðið, að verð það, sem auglýst hefir verið á baðefnum til notkunar næsta vetur, er að minsta kosti talsvert hátt, miðað við það, sem menn hafa átt að venjast að undanförnu.

Þetta var ekki orðið ljóst út um land, þegar þingmálafundir voru haldnir í vor; því að auglýsingin um hin fyrirskipuðu baðlyf og verð þeirra barst ekki út um land fyr en löngu eftir að þeir voru haldnir. Baðefnin fyrst auglýst 16. júlí þ. á. í Lögbirtingablaðinu.

Eigi að síður hafa komið fram óskir á sumum þingmálafundum um það, að sveitirnar eða einstakir menn mættu kaupa baðlyf sín. Getur verið, að þessar óskir hafi komið fram fyrir þá sök, að óþægilegt hafi þótt að leggja út verð baðefnanna alllöngu fyrirfram. Úr því get jeg ekki gjört mikið, og svo mun vera um nefndina í heild sinni.

Það sýnist ekkert verulegt við það að athuga, þótt sumir óski að kaupa baðefni sín meira sundurskift en lögin heimila þeim, annað hvort í sínu eigin kaupfjelagi eða á annan hátt; einkum verður þetta skiljanlegt og meir en afsakanlegt, þar sem verð það, sem auglýst er á baðlyfjunum, hátt á fimta eyri fyrir kindina, virðist svo hátt, að hægt sje fyrir einstaka menn að útvega sjer það með jafngóðum kjörum eða jafnvel talsvert betri.

Það, sem vakti ágreining í nefndinni, var ekki þetta, heldur hitt, að háttv. minni hluti lítur svo á, að svo langt sje gengið í frv., að hreppsnefndum sje ekki heimilað að beita því eftirliti með útvegun baðlyfja, sem æskilegt er og í rauninni er ætlast til af þeim.

Í 3. gr. frumvarpsins stendur, að hreppsnefndir og bæjarstjórnir skuli hlutast til um, að næg baðlyf sjeu pöntuð í tíma, í stað þess að í 5. gr. laganna frá 10. nóv. 1913 stendur, að þær skuli annast útvegun baðlyfjanna. Hjer er því nokkuð vægt til. Það er óneitanlegt, að ef þetta frumvarp verður samþykt, þá fá hreppsnefndirnar minna vald en áður, enda þótt orðin „hlutast til um“ geti gefið hreppsnefndum tilefni til að beita talsverðu eftirliti.

Við þessa breytingu hefir einn nefndarmannanna talsvert að athuga; sömuleiðis lítur hann svo á, að mjög sje athugavert að fara að breyta nýjum lögum, sem lítil reynd er komin á. Að öðru leyti mun háttv. minni hluti gjöra grein fyrir skoðun sinni; en um það get jeg verið sammála háttv. minni hluta, að það er að jafnaði leitt, að þurfa að fara að breyta nýjum lögum, sem lítt eru farin að sýna sig og engin full reynsla komin hvernig reynast muni, er menn fara að venjast þeim og læra að hagnýta sjer þau. En af því það hefir nú sýnt sig, að fjáreigendur víðsvegar um land hafa áhuga á, að fá þessum nýju lögum um sauðfjárbaðanir breytt, þá finst meiri hlutanum ekki ástæða til að setja sig upp á, móti þessum óskum, og leggur hann því til, að frumvarpið verði

samþykt hjer í háttv. deild óbreytt, eins og það kom frá háttv. Nd.