04.08.1914
Efri deild: 31. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Framsögum. minni hlutans (Sigurður Stefánsson); Háttv. framsögumaður meiri hlutans (J. B.) hefir að miklu leyti. tekið af mjer ómakið með að gjöra grein fyrir því, hvers vegna jeg get ekki fallist á frumvarp þetta, eins og það er úr garði gjört frá háttv. Nd.

Jeg lít svo á, að frumvarp þetta minki stórum, að jeg ekki segi nemi braut, þær afaráríðandi tryggingar, sem þurfa að vera, bæði fyrir því, að nóg sje til af baðefnum, og að þau sjeu notuð eins og fyrir er mælt. Úr þessu hvorutveggja er að stórum mun dregið með breytingum frv. á 3. gr. og 5. gr. laganna um sauðfjárbaðanir. Jeg mundi þó ekki hafa gjört ágreining út af breytingunni á 3. gr. einni saman. En breytingin á 5. gr. er þannig vaxin, að jeg get ómögulega fylgt háttv. meðnefndarmönnum mínum í því, að leggja. til að hún sje samþykt. Sú skylda, sem nú hvílir á hreppsnefndum og bæjarstjórnum, að annast um útvegun baðlyfja í sínu umdæmi, má heita að hverfi með öllu, verði þetta frumvarp samþykt. Það er sitt hvað, að eiga að hlutast til um, að næg baðlyf sjeu til, og hitt, að hafa þá skylduað annast um, að svo sje jafnan.

Sú skylda, sem hreppsnefndum er hjer lögð á herðar, er óframkvæmanlegri en skylda sú, er lögin frá í fyrra ætluðu þeim. Jeg þykist vera svo kunnugur hreppsnefndum hjer á landi, að jeg geti fullyrt, að þessi breyting, er hjer ræðir um, verði ekki til annars en að hreppsnefndirnar gegni störfum sínum ekki eins vel og skyldi. Það mun og reynast erfitt að fylgja þessum lögum. Í raun og veru, þarf hreppsnefndin að fara til hvers einasta manns og spyrja hann, hvort hann hafi birgt sig með baðlyf. Það er undir mönnunum sjálfum komið, hvort þeir segja satt eða ekki, og hvort hreppsnefndin fær sanna vitneskju um ástandið. Það væri alt öðru máli að gegna, ef bændur skyldu sjálfir, hve þeim er afaráríðandi að baða, en við vitum allir, að þeir eru ekki eins og þeir ættu að vera, og skilja ekki hve mikið þeir eiga í húfi, ef þeir vanrækja baðanir. Gagnvart óforsjálni manna dugar þessi íhlutunarrjettur hreppsnefnda alls ekki. Gjörum nú ráð fyrir, að hreppsnefnd hefði með ærinni fyrirhöfn fengið þau svör við spurningum um baðlyfjapantanir í hreppnum, að allir hefðu sjeð sjer fyrir nægum birgðum og að alt væri í góðu lagi. En svo kemur það seinna upp úr dúrnum, að Pjetur eða Páll hafi engin baðlyf pantað. Hvar stendur hreppsnefndin þá? Og hvar standa bændur þá? Þetta hirðuleysi þeirra getur bakað þeim stórskaða. Ákvæði laganna í fyrra, að hreppsnefndirnar annist útvegun baðlyfja, sjeu skyldar að panta þau, veitir betri trygging þess, að baðlyfin sjeu alt af til taks. Ef einhver greiðir ekki andvirði þeirra, má taka það lögtaki. Það var því óneitanlega hyggilegar búið um hnútana í lögunum frá í fyrra en hjer er farið fram á. Og þá er þess er gætt, hve mikið liggur við, sýnir reynslan, að það má ekki gefa mönnum mikið undir fótinn með vanrækslu. Það er ilt að vita til þess, að fjárkláðinn skuli enn dafna fyrir vanrækslu eina og hirðuleysi, eftir öll þessi hundruð þús. kr., er kostað hefir verið til útrýmingar honum. Það dugir því ekki að breyta núgildandi lögum og eiga þannig á hættu, að sama skeytingarleysið haldi áfram í þessu efni, sem hingað til hefir kostað landið jafnvel milljónir króna.

Það má varpa því fram, að þeir, sem hlýði eigi lögunum, sæti sektum. En jeg gjöri ekki mikið úr því, og held, að lítið gang sje að því.