04.08.1914
Efri deild: 31. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Framsögumaður minni hlutast (Sigurður Stefánsson):

Út af því, sem háttv. þm. Húnv. (G. Ó.) sagði síðast, að vel hefði mátt tala um þá óánægju, er bólað hefir á út af baðefnunum, þá stóð það ekki til. Nefndin var þar öll á einu máli, og því hefir hún komið fram með þingsályktunartillögu um það efni.

Mjer finst háttv. þm. Húnv. (G. Ó.) gjöra of lítið úr þeim mun, sem er á frumvarpinu og núgildandi lögum. Hann sagði, að það bæri að sama brunni, bæði eftir frv. og gildandi lögum, að það væri sök hreppsnefndanna, ef skortur reyndist á baðefnum. En jeg held því fram, að hægra sje að sjá um, að lögunum verði fylgt og næg baðefni sjeu alt af til, ef hreppsnefndirnar annast innkaup heldur en ef hver fjáreigandi pantar sjálfur. Hreppsnefndin er skyldug að panta meira handa þeim, er panta of lítið. Ef t. d. bóndi, sem á 100 fjár, pantar ekki baðlyf nema handa 50 fjár, þá er hreppsnefndin skyldug að panta viðbót handa honum. Eftir lögunum getur ekki borið að sama brunni, þá er einstakir menn panta og þegar hreppsnefndir gjöra það, af því að bændur eru ekki eins góðir og þeir ættu að vera.

Jeg skal svo ekki vekja deilur um þetta efni. Mjer er þetta ekki kappsmál, en tel ver farið, ef þessi breyting verður gjörð.