06.08.1914
Efri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

55. mál, vörutollur

Framsögum. (Karl Einarsson):

Nefndin hefir athugað frv. þetta eins og það liggur fyrir frá hv. Nd. Í frv., eins og það liggur fyrir, eru nokkrar breytingar frá vörutollslögunum í fyrra 22. nóv. 1913. Nefndin hefir ekki getað orðið sammála að öllu leyti, og jeg býst við, að einn nefndarmanna muni gjöra grein fyrir fyrirvara sínum við umræðurnar um málið. Jeg ætla aðeins að skýra fyrir hv. deild, hvað fyrir okkur vakti með einstökum breytingartillögum okkar. Fyrsta breytingartillagan a–e, gengur aðeins út á að bæta nokkrum orðum inn í 1. gr. frv. Alt það, sem þar er nefnt, stendur í sama lið þeirra laga, sem nú gilda. Þessu var bætt inn í lögin í fyrra og ýmsu öðru, sem menn höfðu komist að raun um að tollurinn væri of hár á. Við höfum tekið alt upp aftur í frv., sem felt var úr af því, sem í gildandi lögum stendur, nema seglgarn, sem verður þá í 6. flokki. Þá höfum við lagt til, að gufukatlar, gufuvjelar, gufuvagnar og bifreiðar falli burt, og verður það þá í 6. flokki. Við lítum svo á, að ef þessar vörutegundir, sem alt eru dýrir hlutir, verði settar upp í 2. lið, þar sem tollurinn er 4 sinnum lægri en í 6. lið, þá muni þar á eftir koma allur 6. liður, svo sem tæki til rafmagnsveitu o. s. frv. Þetta er ekki af því að við álítum þessa hluti ónauðsynlega, heldur af því að okkur þykir sanngjarnt, að borgað sje af þeim sama gjald og af öðrum vörum í 6. flokki.

Þá höfum við enn fremur lagt til, að í 6. málsgrein á eftir orðunum „öðru en allskonar seglgarni“ verði bætt inn „og netagarni“. Netagarn þarf að vera tekið fram berum orðum, svo framarlega sem skófatnaður þarf að vera tekinn fram, til þess að tollheimtumennirnir og aðrir geti skilið lögin. Þá höfum við enn fremur lagt til, að tolleiningin verði 10 kíló eins og hún er nú, því að það er erfitt fyrir tollheimtumennina, að verða að læra nýja tolleiningu á hverju ári, og kaupmenn geta misskilið lögin sjer til tjóns. 3. breytingartillagan er sama eðlis. 4. brtt. fer fram á, að á eftir orðinu „hey“ verði bætt inn „síld til beitu“. Við vitum það, að síldin er eins nauðsynleg fyrir sjávarútveginn eins og heyið fyrir landbúnaðinn. Þegar hey eða fóður vantar, fellur fjenaðurinn, ef beita fæst ekki, fiskast heldur ekkert.

Jeg get gefið þær upplýsingar, að í Vestmannaeyjum voru borgaðar á annað þúsund krónur síðasta ár í vörutoll af innfluttri síld til beitu. Jeg álít þetta mjög ósanngjarnt og að rjett sje, að undanskilja þetta frá vörutolli, ekki síður en annað, sem undanskilið er, enda kemur þetta mjög misjafnt niður; það kemur að eins niður á einstökum stöðum, því að það er ekki alstaðar þörf á að flytja inn síld til heitu.

Að því er 1. gr. snertir, skal jeg geta þess, að jeg felli mig við það til samkomulags við hv. þm: G.-K. (K. D.) að orðunum

„strigi og mottur“ verði bætt inn, enda eru það í raun og veru umbúðir.