06.08.1914
Efri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

55. mál, vörutollur

Jeg skal ekki fara að deila um hinar einstöku vörutegundir, sem hjer valda ágreiningi. Margt af því er hið sama, sem varð deiluefni í fyrra og þá reyni að bæta úr. Jeg skal þó geta þess, að jeg hefi í rauninni ekki mikið á móti því, þótt beitusíld sje látin vera tollfrí; það er einungis á móti því, að ekki verður með vissu sagt um, hvað af innfluttri, ísvarinni:

síld .muni verða notað til beitu. Jeg sje ekki að ástæða sje til að færa seglgarnið úr 3. flokki, fyrst netagarnið hefir verið flutt yfir í 2. flokk, og hefi jeg ekki getað sannfærst af því, sem hv. 3. kgk. (Stgr. J.) sagði um það.

Það er ný upplýsing frá hv. þm. Vestm. (K. E.), að frv. þetta sje eingöngu fram komið í þeim tilgangi, að fá lækkaðan vörutollinn á gufukötlum, gufuvjelum, gufuvögnum og bifreiðum. Mjer er alls endis ókunnugt um þessa ástæðu, og get því ekkert um það sagt, á hvað góðum rökum þessi staðhæfing er bygð. Hitt veit jeg, að margt af því, sem nú er deilt um, er hið sama, sem um var deilt í fyrra. Jeg tók þá töluverðan þátt í meðferð málsins, svo að mjer er vel kunnugt um þetta; og eigi var þá deilt um gufukatla og bifreiðar, svo að víst má telja, að fleira hafi getað komið frv. þessu af stað en bifreiðar og gufuvjelar; ekki voru allir svo ánægðir með úrslit málsins í fyrra.

Jeg skal annars leyfa mjer að benda á það, sem öllum hv. þdm. að vísu mun vera kunnugt, að gufuvjelar og bifreiðar eru afarþung stykki, og að geysihár vörutollur legst á þau, ef hann á að greiðast eftir hærri taxtanum; væri því sanngjarnt, að hann væri linaður nokkuð. Hv. frsm. (K. E.) sagði, að þessi tolllækkun hefði verið aðaltilefnið til þess, að frv. kom fram, en tækifærið svo verið notað til að koma um leið á meira samræmi milli laganna og farmskránna. Í þessu liggur sú játning, að frágangur og niðurskipun málsins sje betri eins og það kom frá hv. Nd. en nefndin ætlast til, að hann verði hjer. Að endingu tek jeg það fram að jeg tel það sama sem að fella frv. að samþykkja 1. lið brtt. nefndarinnar, og jafnvel að samþykkja nokkrar af breytingartillögunum.