11.08.1914
Efri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

55. mál, vörutollur

Framsögum. (Karl Einarsson) :

Hv. Nd. hefir enn breytt frv. þessu frá því, sem það var, þegar það fór hjeðan úr deild. Í framhaldsnefndarálitinu er þess getið, hverjar þessar breytingar sjeu. Þessar breytingar hv. Nd. eru í sjálfu sjer ekki stórvægilegar, en hún heldur þó fast við þær, og kemur það til af því, að þeir, sem þykjast hafa vit á, segja, að þeir

hlutir, sem hjer voru feld nöfn á burt úr frv., standi aldrei á farmskrám með sínu sjerstaka nafni, og því sje ekki nauðsynlegt að telja þá upp. Þetta gildir þó ekki um alla þá hluti, sem hjer um ræðir. Það mun rjett vera, að steðjar, sleggjur, járnkarlar og ljáblöð, standi ekki með sínum sjerstöku nöfnum á farmskrám; aftur á móti er strigi og segldúkur oft tilfært þar með sinu rjetta nafni, og væri þá í sjálfu sjer sanngjarnast að færa þetta undir 2. lið 1. gr., En ekki undir 3. lið 1. gr.; undir 6. lið 1. gr. mundi það ekki verða talið. En nú hefi jeg fengið upplýsingar um, að undir nafninu segldúkur og í umbúðum með segldúk, sje oft flutt ýmislegt, sem að rjettu lagi megi teljast álnavara, svo sem boldang. Þegar svo er, verður minni ástæða til að skipa segldúk í flokk með vörum undir 2. lið 1. gr. Þá er að minnast á striganr. Það er sjálfsagt, að með honum verða taldar umbúðir um fisk, er þær koma hingað nýjar og óbrúkaðar í fyrsta sinn; en þá eru þær ljettar og tollurinn af þeim ekki mjög tilfinnanlegur, enda hefi jeg aldrei heyrt kaupmenn kvarta yfir því að borga toll af þessum fiskumbúðum, er þær koma í fyrsta sinn, eins og af öðrum striga. Alt öðru máli er að gegna upp það, þegar þær eru endursendar; þá eru þær orðnar alt að fjórfalt þyngri af salti og óhreinindum en þær voru nýjar, og væri þá ósanngjarnt að þurfa að borga af þeim sama toll sem af striga; en það kemur ekki til, því að þá teljast umbúðir þessar undir lausar umbúðir, og verður greiddur sami tollur af þeim og öðrum lausum umbúðum. Þá er þess að gæta, að ekki er allur strigi hafður í fiskumbúðir; sumt af honum er haft í fatafóður og til fleiri hluta. Þegar þetta alt er athugað, þá virðist ekki ástæða til að etja kappi við hv. Nd. um þetta atriði.

Það getur verið, að spengur, gaddar og rær sje stundum talið með járnbrautarteinum á farmskrá; stundum er það þó talið sjer með sínum nöfnum á þeim, og langeðlilegast er það, að þetta væri talið með járnbrautarteinum, þegar það á annað borð er ætlað til járnbrautargjörðar. En af því að hjer mun varla um stórvægilegt að ræða í bráð, þá getur meiri hluti nefndarinnar felt sig við breytingu hv. Nd.; vill ekki gjöra hana að ágreiningi, og stofna málinu með því í tvísýnu. Niðurstaða mín verður sú, að jeg vil leyfa mjer að ráða hv. d. til að samþykkja frv. eins og það er nú. Breytingar hv. Nd. eru ekki svo verulegar, en hinsvegar talsverð rjettsbót að frv. frá vörutollslögunum 22. okt. 1912 og lögum nr. 22, 20. okt. 1913, t. d. að eftir því þarf ekki að borga toll af pappír, sem var óviðfeldið og sama sem að leggja toll á bókagjörð. Sömuleiðis eru tilbúin áburðarefni undanþegin vörutolli; enn fremur hey, og má það heita sjálfsagt, því að hey er flutt til mjög fárra staða á landinu frá útlöndum, nema í harðindum og heyskorti, og má þá síst íþyngja mönnum með tollum, þegar þeir eru að reyna að bjarga bústofni sínum. Líkt er að segja um beitusíldina, sem líka er undanþegin vörutolli í frv.; hún er ekki flutt nema til einstakra staða í landinu, helst til Austfjarða og Suðurlands, sjerstaklega til Vestmannaeyja; og það er ekki gjört nema því að eins, að ekki sje kostur á að ná í innlenda síld til beitu. Er það bæði ósanngjarnt og tilfinnanlegt að verða að borga þann háa toll, sem á hana legst. Hver kassi með síldinni í er að þyngd kringum 116 kg., en síldin sjálf í kassanum ekki nema 60 kg.; hitt er ís og trje. Það er harla ósanngjarnt að verða að borga 2 kr. 34 a. í toll af þessu, og það því fremur, sem það kemur niður á örfáum mönnum, og það einmitt mönnum í þeirri stjett, sem þyngst landssjóðsgjöld hvíla á, sjómönnunum. Steinlímspipur, leirpipur og sandur eru svo ódýrar vörur í samanburði við þunga þeirra, að vörutollurinn varð ærið hátt hundraðsgjald á þeim, og tilfinnanleg verðhækkun fyrir þá, sem þær þurftu að kaupa, og trúi jeg ekki öðru en að flestir muni telja það til bóta, að frv. ætlast til að þetta sje undanþegið vörutolli. Jeg gleymdi að taka það fram áðan, að jeg hefi fengið þær upplýsingar, að þótt segldúkur sje keyptur til seglagjörðar, þá er vörutollurinn á honum ekki nema um 2% af verði hans, og getur það engan veginn heitið mjög tilfinnanlegt, nje bakað sjávarútveginum verulegan hnekki.

Jeg tek það upp aftur, að jeg ræð hv. d. til að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir.