11.08.1914
Efri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

55. mál, vörutollur

Framsögum. (Karl Einarsson):

Það er ekki rjett, að barist væri um strigann sjálfan í fyrra; baráttan stóð þá um lausar umbúðir, og það verð jeg að segja, að það er misrjetti, að eiga að greiða sama vörutoll af þurrum striga og strigaumbúðum, votum af salti og fullum af óhreinindum. Um segldúkinn er það að segja, að það getur áreiðanlega verið ein góð aðferð til að svíkja toll á vefnaðarvörum, að hafa þær með honum í umbúðum, ef hann er látinn heyra undir 1 lið 1. gr. Enda er svo, að hann er stundum hafður í. pakka með öðrum vefnaðarvörum, án þess að í nokkrum sviksamlegum tilgangi sje gjört. Um þetta hefi jeg fengið upplýsingar síðan frv. var hjer síðast. Þegar svo er, þá er nauðsyn að fella hann burt úr öðrum flokki.

Annar liður er nú orðinn miklu skýrari en hann var í lögunum 1913. Þá var t. d. að eins nefnt allskonar skepnufóður, og mátti þar í raun rjettri telja með rúg og annan kornmat, þegar það er ætlað skepnum; en nú er þetta sundurliðað svo vel, að ekki getur valdið misskilningi.

Jeg álít að lög eins og þessi eigi að vera sem allra ótvíræðust, og eflaust má telja, að þau sjeu nú orðin skýrari en þau voru í fyrra.

Það er annars ekkert tiltökumál, og ekki annað en við mátti búast, þó ekki í sje hægt að koma á fullskýrri og fullsanngjarnri flokkaskipun á einu eða tveimur árum; lögin eru altof margbrotin til þess. Það er fyrst, reynslan, sem fæst við notkun laganna, er kemur oss til fullnustu, hver sje heppilegust flokkaskifting á vörutegundunum.