05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

77. mál, notkun bifreiða

Framsögum. (Eggert Pálsson):

Eg held satt að segja, að eg hafi litlu við það að bæta, sem tekið er fram í nefndarálitinu. Þar er þess getið, að í nefndinni varð dálítill ágreiningur, enda sýna það breyt.till., sem tveir nefndarmenn hafa komið fram með. Eg hygg, að hættv. deild verði nefndinni sammála um það, að þetta frv. sé þannig lagað, að ástæða sé til að það verði samþykt.

Þetta flutningatæki, sem hér er um að ræða, er algerlega nýtt og jafnframt óvanalegt með það að fara, og ekki alls kostar sama, hverjir stýra því eða hvernig því er stýrt. Þess vegna er nauðsynlegt, að setja lög um meðferð þess og notkun alla.

Hvað ágreiningsatriðin snertir, þá gengur annað þeirra út á það, að hefta umferð bifreiða um veginn frá Reykjavík austur yfir Hellisheiði frá 20, júní til 10. júlí og frá 20. sept. til 20. okt., á tímanum frá kl. 6 að morgni til kl. 10 síðdegis, nema aðeins 2 daga í viku, sunnudaga og miðvikudaga.

Ef þessi kafli ársins yrði tekinn fyrir og umferð bifreiðanna heft á honum um þennan veg, þá styttist mikið sá tími, sem hægt er að nota bifreiðarnar, og sýnilega yrði þær þá ekki hlutaðeigandi sveitum að neinum notum. Þeim yrði þá aðeins leyfð umferð um bláheyskapartímann, og er það bersýnilegt, að á þeim tíma kæmi þær sveitamönnum að engum notum. Þær yrði þá aðallega fyrir kaupstaðarbúa, til þess að skemta sér upp um sveitir. Þó að bifreiðarnar hafi hingað til ekki verið mikið notaðar upp til sveita, þá er ekki ólíklegt, að not þeirra yrði meiri fyrir sveitirnar þegar tímar líða. Og frá sveitanna sjónarmiði væri eins gott að hefta för þeirra með öllu, eins og að hefta för þeirra þennan tíma. Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þessa breyt.till. Eg þykist vita, að háttv. flutn.m. mæli með henni.

En þá er að minnast á hitt ágreiningsatriðið. Það hljóðar um sektarákvæði 13. gr. og er þar töluverður stefnumunur milli meiri og minni hluta nefndarinnar. Minni hlutinn vili breyta frv.gr. og færa sektarákvæðin til samræmis við gildandi fyrirmæli um farreglur á sjó og landi. En meiri hlutinn álítur varhugavert að breyta þessu, ekki af því, að hann kannist ekki við, að með því náist meira samræmi við almennar gildandi farreglur, heldur af því, að nágrannaþjóðir vorar hafa álitið, að öðru vísi þyrfti að vera um skaðabótareglur búið viðvíkjandi bifreiðaferðum, heldur en öðrum ferðum. Og er því ekkert eðlilegra, en að hér komi til að gilda sömu reglur í þessum efnum. Og því fremur sýnist meiri hlutanum rétt, að halda sér við þessa stefnu, þar sem stjórnin hefir augsýnilega ekki fallist á, að það sé hyggilegt, að láta sömu sektarákvæði gilda um bifreiðaferðir eins alment tíðkast um aðrar ferðir, og hv. Ed. ekki heldur. Og mætti því gera ráð fyrir, að svona mikil gjörbreyting, sem háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) fer fram á, að því er snertir eitthvert þýðingarmesta atriði frumvarpsins, gæti komið til að verða því að falli, þá er það kæmi aftur til háttv. Ed. Annars fer vitanlega um þetta eins og önnur ágreiningsmál, að það kemur undir atkvæði deildarinnar að skera úr því, og skal eg ekki frekar um það segja. Meiri hl. nefndarinnar, — þótt ekki sé sami meiri hluti í báðum tilfellum, — leggur til að báðar þessar ágreiningsbreyt.till. verði feldar, en aftur samþyktar breyt.till. nefndarinnar á þskj. 314. Þær eru 7 talsins, og felst í engri þeirra veruleg efnisbreyting. Það er helzt 6. brt., sem telja mætti efnisbreytingu. Hún fer fram á það, að ef ferðamenn með hlaðna vagna neyðast til að víkja út af vegi fyrir bifreið, þá skuli bifreiðarstjóri skyldur til, ef þörf gerist, að hjálpa til að koma vögnunum aftur á veginn. Þetta er ekki tekið fram í frv., en er nýtt innskot frá nefndinni. Nefndin áleit nauðsynlegt að setja inn þetta ákvæði, því að oft er einn maður á ferð með marga vagna, og ef hann neyðist til að fara út af veginum með vagnana, getur það verið miklum erfiðleikum undirorpið, að koma vögnunum aftur á veginn, sérstaklega ef vagnarnir eru hlaðnir og þörf reyndist á að létta þá til þess að koma þeim upp á veginn aftur. Þess vegna virðist það ekki vera nema sjálfsagt og rétt, að bifreiðarstjóri sé skyldur til hjálpar, þegar svo ber undir.

Eg held að það sé óþarfi, að fara orðum um hinar breyt.till. Eg býst við, að háttv. deildarmenn átti sig fljótlega á þeim án nokkurra málalenginga.