15.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Guðmundur Björnsson:

Jeg vil vekja athygli manna á einu atriði í 2. gr., sem jeg veit ekki glögt hvernig á að skilja Jeg ætla að lesa greinina, með leyfi háttv. forseta: „Nú fer maður úr embætti, er eftirlaunarjettur fylgir, í ráðherraembætti eða tekur slíkt embætti eftir að hann hefir slept ráðherraembætti, þá fær hann að eins þau eftirlaun, er því embætti fylgja“. Jeg skal taka dæmi því að dæmin dæma lögin. Við skulum hugsa okkur að einhver, sem hefir verið sýslumaður í 10 ár, verði ráðherra og lafi í 15 ár. Taki svo við sýslumannsembættinu aftur og gegni því í 5 ár og fái svo lausn vegna lúa, sem ekki væri að furða eftir alt það strit.

Þá hygg jeg að greinin verði ekki skilin öðru vísi en svo, að hann fá eftirlaun að eins fyrir þau 15 ár, sem hann hefir verið sýslumaður, því lögin segja — frumvarpið — að ráðherraembættinu fylgi engin eftirlaun, og þá líka enginn eftirlaunarjettur, en það stendur berum orðum í frumvarpinu, að hann fái að eins þau eftirlaun, sem því embætti (hjer sýslumannsembættinu) fylgja, sem hann þjónaði áður en hann varð ráðherra eða eftir það.

Jeg vil biðja lagamenn hjer í deildinni að segja til um þetta; hygg þeir hljóti að játa, að þessi fyrirmæli verði ekki skilin á annan veg; en mjer er nær að halda, að flutningsmenn þessa frumvarps hafi ekki ætlast til, að þau yrðu skilin þannig.