05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

77. mál, notkun bifreiða

Sveinn Björnsson :

Eg get ekki komist hjá því, að svara þeim mótmælum, sem fram hafa komið. Eg fór í fyrri ræðu minni fram á það, að ástæður væri færðar fyrir því, hvers vegna nú ætti að fara að breyta hinni almennu sönnunarreglu. Og eg fekk ekki annað svar en það, að svona væri það hjá Dönum og Norðmönnum. Mér heyrðist á háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að það væri nóg trygging, að vona væri það hjá Dönum. Hann verður að fyrirgefa mér þótt eg geti ekki fallist á eitthvað, sem Danir samþykkja, hvað vitlaust sem það er, og sízt ef það miðar að því að breyta algildri lagareglu. Hann sagði — og líka háttv. þm. Ak. (M. Kr.) að þetta væri eðlilegt, því að hægara væri fyrir bifreiðarstjórann að sanna sakleysi sitt en einstaka ferðamenn. Hér er um misskilning að ræða. Það er hægara að sanna, að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hafi gert eitthvað, en að sanna, að hann hafi ekki gert það. Í þessu liggur munurinn. Það væri alt annað, ef lagt væri á bifreiðarstjórann að sanna, að eitthvað hefði skeð af sama tagi, en hér er farið fram á það, að hann sanni að eitthvað hafi ekki orðið — og það tjáir ekki, hve margir sem eru í vagninum með honum. Enda ber þess að gæta, að bifreiðarnar eru oft tómar, en fjöldi manna er með lestum þeim, er eftir veginum fara.

Þá virðist mér það alveg ótækt, að eigandi verður altaf skaðabótaskyldur, nema í einu tilfelli, sem getur í 14. gr. Ef eg á bifreið og tel mér það hentugt að leigja hana út — leigi hana útlærðum bifreiðarstjóra og varkárum manni. Vilji svo eitthvert slys til, og hann geti ekki greitt bæturnar, þá verð eg skaðabótaskyldur, þótt ekkert samband verði sannað milli mín og þess tjóns, sem að hefir orðið. Þetta er gríðarhörð regla og þekkist ekki í öðrum íslenzkum lögum.

Háttv. þm. Ak. (M. Kr.) sagði, að hættan væri sérstaklega mikil hér á landi, vegna þess hvernig vegirnir eru. En þetta er misskilningur. Það er þvert á móti hér á landi. Aðalhættan annarstaðar er þessi geysihraði, sem bifreiðarnar fara með — alt að 20 mílur á klukkustund. En vorir vegir eru svo úr garði gerðir, að ómögulegt er að aka með þeim hraða á þeim. Vitaskuld eru þeir mjórri en vegir ytra, en þó geta tveir vagnar hæglega mælzt á þeim.

Þá hefir verið sagt, að ekki þyrfti að taka mikið tillit til bifreiðanna vegna þess að þær væri aðallega til skemtiferða. Þessi fullyrðing stafar annaðhvort af athugaleysi eða þekkingarleysi. Eða kallar hann fólksflutningaferðir ekki nytsemdarferðir ? Eg veit um það með vissu, að margir menn úr föðurlandi háttv. l. þm. Árn. (S. S.) hafa farið með bifreiðunum sér til nytsemdar en ekki skemtunar.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) sagði, að með breyt.till. minni væri verið að kippa fótunum undan þeirri varúð, sem annars gengi eins og rauður þráður í gegnum frumv. Þetta er rangt. Aðaltryggingin á ekki að liggja í skaðabótaákvæðunum, heldur í kröfum þeim, sem gerðar eru til bifreiðarstjórans. Það á að heimta af honum, að hann standist próf, hafi leyfi lögreglustjóra, læknis- og prestsvottorð, óflekkað mannorð o. s. frv. Annars skal eg ekki fara frekara út í þetta. En mér þótti rétt að krefjast þess, að einhverjar ástæður væri færðar fyrir því, að fara að breyta algildum lagareglum, en það hefir ekki verið gert.

Eg hefði ástæðu til að segja ýmislegt að gamni mínu við háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), en geymi mér það þangað til seinna.