11.08.1914
Efri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Björn Þorláksson:

Hv. þm. Strand. (M. P.) leiðrjetti það, sem jeg sagði um að engar kýr hefðu verið hafðar á hælinu. Jeg sagði að eins, að jeg hefði heyrt þetta, en fullyrti það ekki. Hann sagði að hælið hefði ekki umráð yfir neinu túni. Það getur vel verið rjett, en þá sýnist mjer að stjórn hælisins hefði upphaflega átt að reyna að ná yfirráðum yfir einhverju túni. Þetta virðist bera vott um að hælinu muni ekki hafa verið stjórnað sem best eða með sjerlegri fyrirhyggju. Sami hv. þm, skildi tillögu mína um að meðgjöf með sjúklingum yrði hækkuð um l0%, á þann hátt, að hún væri að eins gjörð með tilliti til þess, sem fæðið er nú dýrara vegna ófriðarins, en jeg átti við, að það yrði hækkað til frambúðar, án tillits til þess kostnaðar, sem leiðir af þeirri verðhækkun, sem nú er á nauðsynjavörum, en með tilliti til þeirrar verðhækkunar þyrfti aukahækkun á meðgjöfinni um stund. Hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) vakti athygli manna á því, að ef meðgjöf með sjúklingum yrði hærri, þá yrði það til þess að sjúklingarnir færu á sveitina. Jeg get ekki sjeð neitt hættulegt við það; mjer finst það sönnu nær að sveitirnar kosti sjúklingana heldur en landssjóður. Jeg kann illa við þá stefnu hjer í þinginu, að láta allan kostnað við hvaða fyrirtæki sem er, bitna á landssjóði. Það verður ekki með sönnu sagt, að landssjóður hafi verið nískur á fjárframlögum sínum til hælisins. Síðasta þing veitti hælinu 28. þús. kr. styrk fyrra árið og 25 þús. kr. styrk seinna árið, og ef þær 10 þús. kr. verða samþyktar, sem hjer er gjört ráð fyrir, þá verða það samtals 63 þús. kr. á fjárhagstímabilinu, og það sýnist mjer vera vel sæmilegt.

Jeg vil minna á, að það er ekki sala sem fram fer á Vífilsstöðum ; það er gjöf, þegar miðað er við það, hvað kostar að vera á samskonar hælum ytra; og það er landssjóður sem gefur. En maður getur ekki ætlast til að landssjóður einn gefi; það verða fleiri að gefa en hann. Á undanfarandi árum hafa einstakir menn gefið talsvert til heilsuhælisins, en þetta hefir mjög minkað og jeg er hræddur um og geng jafnvel að því vísu, að gjafir einstakra manna til hælisins hætti alveg, ef 20 þús. kr. eru nú veittar úr landssjóði.