11.08.1914
Efri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Björn Þorláksson:

Háttv.6 kgk. (G.B.) furðaði sig mikið á að jeg hefði sagt, að það gjörði ekki til, þótt sjúklingarnir færu á sveitina. En það, sem jeg meinti, var það, að sveitin, en ekki landssjóður, ætti að borga fyrir sjúklingana. Landsjóður á ekki að vera fátækrasjóður, eins og hann er að verða, ef sú stefna fær að ráða, sem nú er farið að brydda á. En slík stefna er óhafandi.

Jeg kannast við, að það er satt, sem sagt var, að mönnum væri ógeðfelt, að fara á sveitina. Það er rjett. Jeg hefi vitað það eins vel sem hver annar. Og jeg bar einu sinni fram hjer á þingi tillögu um það, að sá styrkur, sem mönnum væri veittur til að leita sjer læknishjálpar á sjúkrahælum, skyldi ekki talinn fátækrastyrkur. En þessi tillaga mín fjekk ekki framgang. Jeg held að jeg hafi því ekki verið ónærgætnari við tilfinningar manna í þessu efni heldur en aðrir.

Háttv. 6. kgk. (G. B.) sagði að afleiðingarnar af því, að þingið veitti hælinu að eins 10 þús. kr. styrk, væru þær, að stjórn hælisins yrði að borga það, sem á vantaði, úr sínum eigin vasa. En ef svo er, ætli það sje þá ekki af því að stjórninni hafi ekki farið starf sitt sem heppilegast og hyggilegast úr hendi?

Jeg vil benda á, að í frumvarpinu er ekki talað um annað en reksturskostnað. Eftir frumvarpinu væri engin heimild til að verja landssjóðsstyrknum til að borga gamlar skuldir þær verður að geyma til næsta þings. Það þarf meira en lítinn tíma til þess að bæta úr þeim göllum, sem kunna að vera á rekstri og stjórn hælisins. Og verður ráðstefna um það að bíða næsta reglulegs þings.