11.08.1914
Efri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Hákon Kristófersson:

Jeg skal ekki vera langorður. En þetta mál horfir svo við, að jeg er í vanda staddur, hvernig jeg á að snúa mjer í því, hvort jeg á að fylgja frumvarpinu eða vera með breytingatill. á þingskj. 468. En hvað viðvíkur heilsuhælinu, segi jeg fyrir mitt leyti, að mjer er ekki kunnugt um „status“ þess, en hefi aðeins umsögn annara að. byggja á. En sje það, að miklar skuldir hvíli á stjórninni, er óefnilegt, og jeg álít tæplega sanngjarnt, að hlaupa ekki enn einu sinni undir bagga, þótt jeg og fleiri þingmenn byggjumst við að það, sem þingið í fyrra gjörði, mundi hlíta betur en nú er komið á daginn. Hjer hefir verið deilt um það, hvort dýrara sje að vera á Vífilsstaðahælinu eða öðrum sjúkrahúsum hjer á landi, og vil jeg halda því fram, að töluvert ódýrara sje að vera þar, en á sjúkrahúsum úti um land. Út af ummælum hv. 6. kgk. (G. B ) um það, að hann sje búinn að koma skipulagi á reikninga lækna úti um land og gjöra þá sanngjarnari, vil jeg geta þess, að mjer sýnist það undarlega horfa við, að sami maður, er fyrir skömmu barðist fyrir hækkun á læknataxta yfirleitt, geti ætlast til þess, að hjeraðslæknar úti um land geti sint sjúklingum fyrir minni borgun en læknar í bæjum, eða þar sem fjölmenni er meira. Af því jeg er ekki með öllu ókunnugur reikningum frá læknum í slíkum tilfellum, þá verð jeg að geta þess, að reikningar frá læknum úti um land eru alls engu sanngjarnari en lækna hjer í Rvík. (Guðm. Björnsson: Er læknaskipunin til umræðu?). Að vísu er læknaskipunin ekki til umræðu, en jeg vona að hv. 6. kgk. verði að viðurkenna, að jeg fer hjer ekki lengra út fyrir efnið en hann hefir leyft sjer að fara í ýmsum málum hjer í deildinni. Jeg sje mjer ekki annað fært en að vera með því, að þessi fjárhæð verði veitt til heilsuhælisins; þetta er mannúðar- og líknarstofnun og menn verða að hugsa sig mjög vel um, áður en þeir hindra framgang þessa máls.

Viðvíkjandi ráðsmensku á Heilsuhælinu hefi jeg á engu að byggja, nema umsögn annara, og skal því ekki farið mikið út í það.

Eins skal jeg þó geta, sem háttv. stjórn heilsuhælisins hefir kann ske ekki gætt eins og vera skyldi, en það er að afla sjer haganlegra verslunarsambanda. En þetta er ekki sagt til þess að ásaka stjórnina, sem jeg álít að hafi barist fyrir og fylgt fram þörfu verki.