11.08.1914
Efri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Karl Finnbogason :

Þessu máli fer eins og fleirum, að það verður því flóknara, sem meir er um það rætt. En mjer finst málið mjög einfalt. Annaðhvort er þörf á fjárveitingunni eða ekki þörf á henni.

Ef hámarkið er sett alt að 20 þús. kr., eins og gjört er ráð fyrir í tillögu fjáraukalaganefndarinnar, þá er þar með trygt, að fjárveitingin verði að notum. Því um meira hefir ekki verið beðið, og þetta talið nóg af aðstandendum hælisins. En ef hámarkið er sett eins og hjer er gjört, gæti farið svo, að fjárveitingin yrði of lítil og verði að loka hælinu eftir sem áður, samkvæmt þeim skýrslum, sem fyrir liggja. Og þá er ver farið en heima setið, fjenu fleygt út, en tilganginum ekki náð. Jeg vil því ráða til þess, að hámarkið verði annaðhvort óákveðið, eða 20 þús. kr., eins og ráðgjört var í fyrstu, og frv. hljóðar um. Jeg hafði búist við að greiða brtt. atkvæði mitt. En af umræðunum er jeg orðinn veiktrúa á, að rjett sje að samþykkja hana. Og mun því til miðlunar koma með breytingartillögu við hana við næstu umræðu málsins.