05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

77. mál, notkun bifreiða

Einar Arnórsson:

Eg skal ekki tefja tímann með langri ræðu, að þessu sinni.

Það er aðallega út af breyt.till. á þgskj. 333, frá háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.), að eg stend upp. Það er vitanlega satt, að í 13. gr. þessa frv. eru settar harðari skaðabóta- og sönnunarreglur, heldur en alment er. En eg held, að hér sé líka nokkur ástæða til að gera afbrigði frá almennum reglum. Í rauninni er bifreiðaeigendum ekki settir harðari kostir í þessu efni heldur en t. d. skipaútgerðarmönnum. Eins og kunnugt er — og það er að eg hygg alþjóðaregla — bera eigendur eða útgerðarmenn skipa fullkomna ábyrgð á farmi skipanna og verða að gjalda fyrir skemdir á honum, nema það sannist, að vis major hafi valdið þeim, eða sökin liggi hjá farmeiganda eða sendanda. Mér finst þetta ákvæði í 13. gr. frumv. nokkurskonar öryggispípa til þess, að allir þeir, sem með bifreiðar fara, gæti sín þeim mun betur. Og er ekki nema sjálfsagt, eins og hér hagar til, að búa svo um hnútana, að bifreiðarstjórarnir viðhafi alla aðgæzlu.

Það var ekki rétt, sem háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) gat um, að þeim mönnum, er vildi gerast bifreiðarstjórar, væri sett sérlega ströng skilyrði eftir þessu frumv. Eg sé ekki betur, en að hver 18 ára gamall strákur geti komist að þessum starfa, eftir þeim ákvæðum, sem sett eru í frv. Og það get eg ekki kallað hörð skilyrði.

Ef eg skil rétt 13. gr., þá hygg eg að hún geti aldrei skift miklu máli. Hún er að eins til þess að hvetja menn til að fara sem allra gætilegast, og ef menn gera það, þá nær greinin tæplega lengra.

Eg hefi einusinni farið í bifreið austur yfir fjall. Það var ekið mjög gætilega, enda fór mjög fjarri því, að nokkur ógæfa kæmi fyrir á leiðinni, nema ef telja skyldi, að einn hestur — lítt tamið tryppi, að því er virtist — sleit tauminn.

Ef gætilega er farið, mun það sjaldan koma fyrir, að tjón vilji til vegna bifreiðanna, og þá mun það einnig sjaldan koma fyrir, að eigendur bifreiðanna þurfi að borga stórar upphæðir vegna þess tjóns, sem þær vinna.

Hina vegar skal eg játa, að 2. setning 14. greinar er eigi heppileg og fullströng. Það er áreiðanlega nokkuð hart, að bifreiðareigandi eigi altaf að borga skaða, er af bifreið hans hlýzt; þótt hann hafi t. d. leigt hana lengri eða skemri tíma, t. d. einn mánuð eða lengur. Eg sé eigi ástæðu til þess að fara svo hart í sakirnar. Sýnist mér, að hér mætti almennar reglur gilda um ábyrgð manna á verkum starfsmanna sinna og annarra manna, þ. e., að bifreiðareigandi beri eigi aðra ábyrgð á verkum annarra manna, er með bifreið hans fara, en hann mundi gera samkvæmt alm. reglum. Væri ástæða til að breyta þessu að einhverju leyti við þriðju umræðu.

Enn vil eg geta þess, að þótt settar sé strangar reglur um bifreiðaferðir, þá er það ekki nóg, ef ekki eru líka sett ströng viðurlög við brotum gegn þeim reglum. Þessi viðurlög eru í 13. grein frumv., og held eg, að hin ætti að standa óbreytt.

Um hinar brt. sé eg ekki ástæðu til að fjölyrða, en skal þó taka það fram, viðvíkjandi brt. háttv. samþingismanns míns (Sig. Sig.) að eg tel hæpið, að mönnum austan fjalls verði hagur að því, að brt. hans á þgskj. 316 verði samþykt, því að nú eru þeir farnir að nota talsvert bifreiðar til flutninga.