10.08.1914
Efri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

82. mál, listaverk Einars Jónssonar

Karl Finnbogason :

Hv. 3. kgk. (Stgr. J.) tók það fram, að Englendingur einn hefði bent Dönum og heiminum á listaverk Thorvaldsens — með því að kaupa Jason af honum. Konsúll Ditlev Thomsen hefir bent okkur og heiminum á Einar Jónsson, með því að kaupa útilegumanninn af honum, og gefa hann landinu. Jeg vil annars leyfa mjer að benda á meðferðina á því listaverki. Það er geymt í fordyri Íslandsbanka og liggur þar undir skemdum götustráka og annars óþjóðalýðs. Slíkt er til svívirðu og sýnir ljóst, hversu lítið við Íslendingar metum listina. — Annars vil jeg taka það fram, að það er ekki aðalatriðið fyrir mjer, að styrkja Einar Jónsson, þó að hann eigi það margfaldlega skilið, heldur hitt, að landið missi ekki af þessum listaverkum. Við höfum hjer tækifæri til þess að sýna ungum listamanni kurteisi, gjöra landinu gagn og sjálfum okkur sóma. Og því tækifæri megum við ekki sleppa ónotuðu.