10.08.1914
Efri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

82. mál, listaverk Einars Jónssonar

Kristinn Daníelsson:

Jeg hlýt að taka undir með hv. 3. kgk. (Stgr. J.), að þetta mál er alt of illa upplýst, og hefði því verið eðlilegast, að skipa nefnd til þess að athuga það betur. En nú er komið að þinglokum og að setja málið í nefnd, væri sama sem að drepa það. Nokkurra upplýsinga gætu menn þó sjálfsagt aflað sjer, áður en málið kemur til 2. umr. — Annars vildi jeg leggja það til málanna, að mjer finst mjög óviðurkvæmilegt, að hafna þessu tilboði, þó að listamaðurinn, sem hlut á að máli, sje ekki heimsfrægur. Hann býðst nú til að gefa landinu öll sín verk, og setur það eitt upp, að þau verði flutt hingað heim. Hv. 3. kgk. sagði, að hann væri ekki viss um, að Einari væri greiði gjörður með því, að taka þessu tilboði. Jeg er honum ekki samdóma um það. Einar mun ekki geta kostað geymslu á verkunum, og því er honum nauðsynlegt, að Alþingi vikist vel við tilboði hans. Hjer er ekki um neinn hreppabitling að ræða, heldur um mál, sem varðar þjóðina alla. Þess vegna er það von mín, að þessi heimildarlög nái fram að ganga.