11.08.1914
Efri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

82. mál, listaverk Einars Jónssonar

Jósef Björnsson; Jeg skal ekki lengja umræðurnar um þetta, en vildi segja örfá orð út af ummælum hv. þm. Strandam. (M. P.)

Jeg get ekki tekið undir með honum, að brtt. lýsi nokkru minsta vantrausti til stjórnarinnar, heldur er hitt, að okkur, sem flytjum þessa brtt., var ljóst, að þetta mundi kosta nokkuð mikið og töldum heppilegra að taka til einhverja upphæð, þá upphæð, sem þeir, er kunnugastir eru þessu, töldu alveg fullkomlega nægilega.

Breytingartill. er komin fram til þess að styðja að framgangi málsins, en að hún feli í sjer nokkurt vantraust til stjórnarinnar, því vil jeg harðlega mótmæla fyrir flutningsmannanna hönd.