13.08.1914
Efri deild: 42. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

114. mál, atkvæðagreiðsla við alþingiskosningar

Framsögum. (Karl Finnbogason) :

Nefndin hefir lagt til, að þetta frv. yrði samþykt með þeim litlu breytingum, sem standa á þingskjali 505.

Fyrsta breytingin er við 3. gr., þar sem í frumvarpinu er að eins gjört ráð fyrir einmenningskjördæmum, og leggur því nefndin til, að eftir orðinu „þingmannsefnis“, í fyrstu málsgrein komi orðin: eða þeirra þingmannaefna, ef fleiri en einn á að velja.

Jeg vil að eins benda á það, að þessi breyting er alveg sama eðlis og um var að ræða í kosningalagafrumvarpinu.

2. breytingin er við 4. gr.; a-liður, er um það, að eftir orðunum „þingmannsefnis“ í 1. málsgrein, komi orðin: eða þingmannaefna, ef fleiri en einn á að kjósa. Þessi breytingartillaga er sama eðlis og hin og jafn sjálfsögð.

b. er um það að orðin „er fæst við skipaafgreiðslu“ í 3. málsgrein, falli burt. Þau eru alveg ónauðsynleg og hafa verið feld alstaðar annarsstaðar burt úr stjórnarfrumvarpinu.

c. er um það, að á eftir orðinu „sýslumanns“ í 4. málsgrein, komi orðin: umboðsmanns hans. Með því er gjört ráð fyrir, að hægt sje að fá vottorð það, sem þar um ræðir, hjá umboðsmönnum sýslumanns, ef ekki næst til hans sjálfs.

Fleiri breytingartillögur gjörði nefndin ekki. Og þótt jeg verði að viðurkenna, að frumvarpið sje lítið athugað af okkur, legg jeg til fyrir nefndarinnar hönd, að það verði samþykt með þessum breytingum.