24.07.1914
Efri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

15. mál, sveitarstjórnarlög

Sigurður Stefánsson :

Jeg get fallist á flestar af brtt. nefndarinnar, sjerstaklega að því er utanhreppsmenn snertir, er atvinnu reka í hreppnum, því það er rjett, að þeir hafa hingað til sloppið undan gjöldum, sem þeir ættu að bera. Það er alltítt að kaupmenn hafa lengri og skemri tíma ársins salt og fiskverslun í hreppunum umhverfis aðalverslun þeirra undir því nafni, að þar sje að eins um saltafhending og fisktöku að ræða. Tíðkast þetta mjög mikið í Ísafjarðarsýslu. Það er töluverðum vandkvæðum bundið, að ná aukaútsvörum af þessum atvinnurekstri, með því líka að landsyfirrjettardómur mun vera til fyrir því, að ekki sje hægt að leggja aukaútsvör á fisktöku og saltafhending kaupmanna, er borgun á þessum vörum fer fram við aðalverslun kaupmannsins. Og jeg er ekki viss um að breytingartillögur nefndarinnar sjeu svo greinilegar, að slíkur kaupskapur, sem hjer er um að ræða, falli tvímælalaust undir lögin. Vil jeg skjóta því til háttv. nefndar, hvort eigi mundi ástæða til að setja ný ákvæði inn í þessa grein, sem gjörðu orðalag hennar skýrara, svo að lögin næðu tvímælalaust til slíks kaupskapar. Mjer er það kunnugt, að í Ísafjarðarsýslu hefir verið lagt útsvar á svona löguð viðskifti, en það hefir gengið illa að ná útsvarinu inn. Jeg gæti hugsað að bæta mætti inn í greinina á eftir orðinu „kaupskapur“: salt og fisktöku, svo að það kæmi greinilega í ljós, að lögin næðu einnig til þessa. Vona jeg að háttvirt nefnd taki þetta til athugunar og komi fram með breytingartillögu þess efnis fyrir næstu umræðu.

Jeg skal svo ekki fara mörgum orðum um þetta frumvarp. Jeg get vel hugsað að það hafi verið rjett að breyta ákvæði laganna um bátfiski, svo sem nefndin hefir gjört og að það ákvæði, sem nefndin fer fram á, að leitt sje í lög, sje betra en í núgildandi lög um það efni