27.07.1914
Efri deild: 19. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

15. mál, sveitarstjórnarlög

Framsögum. (Kristinn Daníelsson) ; Við nefndarmenn höfum leyft okkur að koma fram með breytingartillögu í tilefni af því, sem rætt var um hjer við 2. umr. málsins, að rjett væri að fella burtu úr sveitarstjórnarlögunum tilvitnun þeirra til fátækratíundarinnar, sem tekjustofns fyrir hreppana, þar sem líkur eru til að það gjald verði úr lögum numið á þessu þingi.

Þá höfum við enn fremur, í tilefni af athugasemdum háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) við síðustu umræðu, athugað hvort sá atvinnurekstur, sem hann mintist á, þ. e. s.

afhending á salti og kaup á fiski, fjelli undir orðið kaupskapur, og virðist okkur sem það orð muni ná til þessa, svo framarlega sem um kaupskap er að ræða í raun og veru. En stundum er þetta ekki kaupskapur, heldur að eins flutningur á salti til viðtakenda og brottflutningur á áður keyptum fiski, og finst okkur þá ekki sanngjarnt, að ritsvar sje lagt á það, og höfum því ekki lagt til að lögunum verði breytt í þá átt. Stundum hefir kaupmaðurinn aftur á móti mann á staðnum til að selja saltið og kaupa fisk af hjeraðsbúum, og þá er hjer um kaupskap að ræða, og fellur það því undir orð greinarinnar.

Ætla jeg svo ekki að fjölyrða frekara um málið, en vona að það fái að ganga sinn gang út úr deildinni með þessari einu breytingu, sem nefndin leggur til að gjörð verði á frv.