10.07.1914
Efri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

23. mál, tollalög

Flutningsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg skal játa það, að jeg hefi komið fram með þessa tillögu mína um breytingu á tolllögunum með hálfum huga. En jeg hefi ráðist í það vegna þess, að mjer sýnist nauðsyn til að löggjafarvaldið láti, eins og nú er komið, að einhverju leyti til sín taka um tollmál landsins. Hingað til hefir mest verið hugsað um það eitt, að auka tekjur landsins með því að auka tollana, og fjölga tollstofnunum gegndarlaust.

En eftir því sem þeim vörum er fjölgað, sem tollskyldar eru, verður meiri nauðsyn á tollgæslu. Því að þótt jeg vilji ekki gjöra verslunarstjett okkar neinar getsakir, þá á þó þar, sem annarsstaðar, við hinn forni málsháttur, að „misjafn er sauður í mörgu fje“. Og það er nauðsynlegt að löggjöfin gjöri eitthvað til þess að tryggja það, að landssjóður fái þær tekjur, sem honum ber lögum samkvæmt. Og þörfin á þessu veg með hverju ári, eftir því sem tollstofnum og kaupmönnum fjölgar. Jeg býst samt við, að þingið muni hugsa sig tvisvar um áður en það eykur tollgæsluna, vegna þess kostnaðar, sem af því mundi leiða. En mjer hefir komið til hugar, hvort það mundi ekki hjálpa nokkuð, ef þyngd væri sú refsing, sem við tollsvikum er lögð. Mjer er sagt, að nú sjeu 7–8 kaupmenn hjer í Reykjavík undir ákæru fyrir tollsvik, og virðist mjer það vera mjög ískyggileg tala. Bæjarfógetum og sýslumönnum er ómögulegt að hafa fullnægjandi eftirlit með að tollskyldum vörum sje ekki smyglað inn í landið. Það gengur hjer nú sú saga, að lögreglan hjer í bæ hafi nýlega slegið upp 7 kassa, sem áttu að fara út um land. Í einum kassanum, sem merktur var „Kekkengods“, fundust 12 vindlakassar; í öðrum, merktum „Regulatorer“,4, og hinum þriðja, merktum „Saumavjelar“, 2, allir í miðjum kössunum.

Í þremur af þessum kössum fanst þannig meira og minna af tollskyldum vörum. Þetta og margt fleira af líku tægi sýnir, að nauðsyn ber til að reynt sje að stemma stigu fyrir þeim ófögnuði, sem hjer er um að ræða. Það er óþolandi, þegar þingið ár eftir ár er að íþyngja landsmönnum með nýjum tollum, að ekkert sje jafnframt gjört til þess að sjá um, að tollarnir renni í landssjóðinn en ekki í vasa miður ráðvandra manna. Jeg býst við því, að mönnum þyki þessi ákvæði, missir verslunarleyfis, sem farið er fram á að bætt verði í tolllögin, nokkuð hörð, en mjer finst þó þetta vera reynandi. Sektir þær, sem í tolllögunum eru lagðar við tollsvikum, eru hæstar 1000 kr., en sjaldan er dæmt í svo háar sektir, heldur í nokkur hundruð króna, og þessa háu herra, sem svíkja tollinn, munar ekki mikið um að snara því út. Þeir hlæja bara að þessum sektum, því að þeir græða margfalt meira á tollsvikunum heldur en sektinni nemur. Jeg vil benda á að missir verslunarleyfis, sem refsing fyrir slík brot, er ekki neitt nýtt í lögum vorum. Sama ákvæði er í lögum um verslun og veitingar áfengra drykkja frá 11. nóv. 1899. Þar er atvinnumissir lagður við því, ef unglingi innan 16 ára aldurs eru veittir áfengir drykkir eða manni, er sviftur hefir verið fjárforræði vegna drykkjuskapar eða sem er skertur á geðsmunum sökum drykkjuskapar. Þessi lög eru sannarlega hörð, en jeg get hugsað, að þessi hörðu ákvæði hafi dregið úr brotum á þeim lögum. Það er þó óneitanlega minna beint fjárhagslegt tjón fyrir þjóðina, þó að unglingi innan 16 ára aldurs sje gefið í staupinu, heldur en að landssjóður sje sviftur mörgum þúsundum af þeim tekjum, sem honum bera. Því er það ekki ástæðulaust, þó refsingarákvæði tolllaganna sjeu enda harðari en vínsölulaganna, enda er til þess ætlast, því að hjer er refsað með atvinnumissi, þegar brotið er í fyrsta sinn gegn lögunum, en í vínsölulögunum ekki fyr en brotið er í þriðja sinn. Vænti jeg þess, að háttvirt deild athugi þetta mál og skipi nefnd til að íhuga það.