10.07.1914
Efri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

23. mál, tollalög

Ráðherra (Hannes Hafstein):

Háttv. flutningsmaður (S. St.) tók það fram, að. missir verslunarleyfis væri hörð hegning, og er það rjett. En það er sök sjer. Hitt er verra, að sú harða hegning getur ekki gengið jafnt yfir alla, sem toll svíkja. Sú harða hegning getur vitanlega ekki; náð til annara en þeirra, sem hafa verslunarleyfi. En það eru ekki þeir einir, sem beitt geta tollsvikum. Það geta allir gjört, umboðssalar, vörubjóðar og privatmenn, og það menn, sem á engan hátt njóta minna opinbers trausts en til þess þarf, að fá alment verslunarleyfi. Þetta getur leitt til mikils ójafnaðar.

Hugsum oss tvo menn; annar er heiðarlegur kanpmaður, sem verður það á að segja ekki til einhvers lítilræðis af tollvöru, er hann hefir fengið. Hinn er glæframenni, sem beint leggur það í vana sinn að augðast á tollsvikum, en hefir ekki verslunarleyfi. Eftir þessum lögum fengju báðir sektir. En annar slyppi með það; hinn misti auk þess löglega atvinnu sína og alla fjárhagslega aðstöðu, yrði að losa sig við vöruforða sinn, gjöra upp öll viðskifti sín o. s. frv., er gæti orðið honum til hins mesta tjóns. Frumvarpið gæti því að vísu orðið til að hræða kaupmenn frá að svíkja toll á vörum, er þeir flytja inn sjálfir, en það gæti ekki varnað því, að þeir samt hefðu hag af tollsvikum annara, ef þeir vildu svo við hafa, að fá menn, sem ekki eiga nein verslunarrjettindi í húfi, til þess að nálgast vörurnar. Það gæti jafnvel orðið til þess að koma upp sjerstakri tollsmyglastjett í landinu.

Þó að mjer detti ekki í hug að mæla tollsvikum bót, og viðurkenni góðan tilgang frumvarps þessa, þá er þó þess að gæta, að tollsvik — þrátt fyrir nafnið eru annars eðlis en önnur venjuleg svik, enda er svo talið í almenningsálitinu. Þau eru líkari tíundarsvikunum alkunnu, undandráttur í því, að greiða lögboðin, opinber gjöld, er mörgum þykir þungbær. Gott eftirlit er rjettlátara og haldbetra gagnvart slíku en mjög gífurlegar hegningar.