06.08.1914
Neðri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

77. mál, notkun bifreiða

Sveinn Björnsson:

Eg á dálitla breyt.till. við 14. gr., sem eg bjó til í flýti í gær. Tilgangurinn með breyt.till. er sá, að reyna að kippa burtu úr frv. verstu vitleysuákvæðunum um skaðabótaskylduna. En vegna þess, að hún var í flýti samin og getur orðin misskilin, þá tek eg hana aftur.

Út af ræðu háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), þá vil eg negla fast þau orð, sem hann viðhafði um 14. gr., svo að þau gleymist ekki. Hann sagði, að nefndin hefði orðið sammála um það, að láta greinina »passera«, lofa henni að slarka. Er það ekki hart í svona mikilsverðu máli, að »láta slarka«. En þessi er afstaða nefndarinnar í ekki lítilvægara máli.

Viðvíkjandi breyt.till. háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) skal eg geta þess, að eg veit ekki, hvað hann meinar með því, að bera hana fram. Jú! Hann sagði í gær, að lítil trygging væri í því, að láta 18 ára stráka stjórna bifreiðum. Þess vegna vill hann færa aldurstakmarkið upp í 21 ár. Eg fæ ekki séð, hvað vinst með þessu. 18 ára gamall maður er kominn svo til vits og ára, að honum er vel trúandi fyrir þessu verki, auk þess, sem slíkir menn eru oftast fljótari til athugunar og röskvari en þeir sem eldri eru. Eg verð að segja það, að ætti eg að velja á milli 18 ára manns, til að stjórna bifreið, og gamals og ráðsetts prófessors, þá kysi eg heldur 18 ára manninn. Eg býst við, að hann væri bæði hæfari til starfans og minna viðutan. Eg vænti þess því, að þessi breyt.till. verði feld.