07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

23. mál, tollalög

Framsm. (Björn Þorláksson):

Hv. deild hefir áður haft frv. þetta til meðferðar. en þá var það með öðrum titli. Frv. var að eins ein gr., er það fór hjeðan, en hv. Nd. hefir liðað hana sundur í fjórar málsgreinar og gjört ákvæði hennar gleggri og ljósari en þau áður voru. Jeg hygg, að allir geti verið sammála um að breytingar og viðbætur Nd. sjeu til bóta. Aðalbreytingin er í 2. gr. frv., og er hún í því fólgin, að hverjum póstmanni er heimilt „að opna böggulsendingar, sem sendar eru í pósti frá útlöndum, áður en þær eru afhentar, ef grunsamt þykir, að eigi sje rjett frá skýrt um innihald þeirra“. Þessi viðbót mun upphaflega vera komin frá nefndinni, sem hv. Ed. skipaði til þess að athuga, hvernig haga skyldi eftirliti með gjaldheimtumönnum landssjóðs. Hafði hún leitað álits póstmeistara um þetta nýmæli, og hann fallist á að það væri þarft og gott. Meiri hluti nefndarinnar vill og mæla með þessu ákvæði, en einn nefndarmanna var því mótfallinn, enda skrifaði hann undir nefndarálitið með fyrirvara. Hann gjörir sjálfsagt sjálfur grein fyrir sinni skoðun nú við umræðurnar. Nefndin telur þetta frv. eitt hið merkasta laganýmæli, sem legið hefir fyrir þessu þingi, og ræður hv. deild til þess að samþykkja það.