07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

23. mál, tollalög

Steingr. Jónsson :

Jeg get ekki verið sammála hv. þm. Vestm. (K. E.) um 2. gr. Jeg álít að brýna nauðsyn beri til að skerpa eftirlit póstmanna með böggulsendingum, því að það tíðkast meir og meir, síðan vörutollslögin voru samþykt, að sendar sjeu vörur í pósti. Þess vegna hefir orðið að auka svo mjög laun póstafgreiðslumanna, enda eru þeir nú orðnir tollheimtumenn, þar sem þeir eiga að heimta inn vörutoll af böggulsendingum. Spurningin er, hvort greinin . er svo vel orðuð, að við megi una. Hv. þm. Vestm. hjelt því fram, að með orðinu „póstmaður“ væri átt við hvern þann, sem afgreiðsluna hefði á hendi í það og það skifti. En það eru að eins póstafgreiðslumennirnir, sem mega fást við afhendinguna. Það er að vísu satt, að þeir geta haft þjóna, en ábyrgðin hvílir þó eingöngu á sjálfum þeim. Lögreglustjórar myndu oftar en póstafgreiðslumenn nota þjóna, ef þeim einum væri heimilað að opna bögglana.