06.08.1914
Neðri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

77. mál, notkun bifreiða

Framsögumaður (Eggert Pálsson):

Það eru örfá orð út af ummælum háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.). Það er óvefengt af honum, að meiri hluti nefndarinnar var þeirrar skoðunar, að 14. gr. ætti að standa óbreytt. En það var eg, en ekki meiri hluti nefndarinnar, sem notaði áðan í ræðu minni orðið að »passera« yfir þetta. Auðvitað geta verið nokkuð skiftar skoðanir um, hvernig þetta orð skuli þýða. Eg fyrir mitt leyti álít það rangt þýtt með orðunum að »láta slarka«, og að minsta kosti notaði eg það ekki í þeirri merkingu. Eftir minni meiningu merkir orðið hér í þessu sambandi »að láta sitthvað ósnert«, láta það fara fram hér í sama gervi og það hefir. Og eg held að það sé ekkert hneykslanlegt að segja um þær greinar, sem standa óbreyttar, óáreittar, að þær »passeri«, nema frá málfræðilegu sjónarmiði skoðað. Við það skal eg fúslega kannast.

En þar sem háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) hefir nú lýst yfir því, að hann taki breyt.till. sína við 14. gr. aftur og þetta er þó 3. og síðasta umræða málsins, þá skal eg benda á það, að hann er þar með sjálfur kominn á þá sömu skoðun eða stefnu, sem hann vítir svo harðlega hjá meiri hluta nefndarinnar, að láta 14. gr. »passera« óbreytta. Eða með öðrum orðum: Hann vill nú — svo eg brúki hana eigin orð — alt í einu láta hana slarka.