18.07.1914
Efri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Flutnm. (Karl Einarsson) :

Jeg skal ekki verða fjölorður um þetta mál nú við þessa umr., enda vona jeg að hv. deild taki því vel og leyfi því að ganga til umr. Hjer er að vísu ekkert stórmál á ferðinni, en þó er það talsvert þýðingarmikið. Hjer er ekki farið fram á að baka landssjóði neinn tilfinnanlegan kostnað; hjer á ekki að setja neitt stórembætti á laggirnar; en ef frv, yrði að lögum, þá kynni það að geta forðað klasískum fræðum frá því að falla algjörlega í gleymsku og dá hjer á landi. Jeg skil ekki annað en að allir stúdentar frá latínuskólanum gamla hljóti að viðurkenna, að latínunámið hafði hina mestu þýðingu fyrir mentun þeirra og þroska. Stærðfræðin var líka þýðingarmikil að því leyti, en latínan var það ekki síður. Margir munu geta sannað það, að skilningur þeirra á íslenskri tungu varð miklu næmari eftir að þeir höfðu fengið kynni af latneskri málfræði.

Í þetta sinn skal jeg ekki fara fleirum orðum um málið, en að eins leyfa mjer að vísa til fylgiskjalsins. Jeg vona að málið fái að fara til 2. umr. og að 3 manna nefnd verði skipuð til að athuga það að þessari umr. lokinni.