28.07.1914
Efri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Framsögum. (Sigurður Stefánsson):

Jeg ætla mjer ekki þá dul, að fara að mótmæla allri minni löngu ræðu háttv. 6. kgk. (G. B.). Ræða hans var mjög fróðleg, en fór að ýmsu leyti fyrir ofan garð og neðan hjá aðalefni málsins. Jeg tók það fram í fyrri ræðu minni, að það er alls ekki tilgangur flutningsmanna þessa frumv., að standa í vegi fyrir því að kensla í raunvísindum eða öðrum þeim fræðum, sem hv. 6. kgk. nefndi, komist á við Háskólann. En um það, hverjar fræðigreinar skuli ganga fyrstar, þegar um það er að ræða, að auka kenslu við Háskólann, verða að sjálfsögðu deildar meiningar. Jeg skal taka það fram í tilefni af því, sem háttv. 6. kgk. sagði, að mjer er alls ekki kunnugt um, að neitt sje fyrirfram ákveðið um úrslit þessa máls í deildinni.

Mestöll ræða háttv. 6. kgk. snerist um það, hver hans persónulega reynsla væri í grísku og latínu. Mín persónulega reynsla í þessum efnum er nú alt önnur en hans. En um það má lengi deila, hvaða fræði eru þarflegust, hvort það eru klassísku málin eða raunvísindi eða ef til vill nýju málin, en jeg vil geta þess, að lykillinn að þessum fræðum, raunvísindunum og nýju málunum, er einmitt í mörgum atriðum gömlu málin. Þessu til sönnunar skal jeg geta þess, að mjer er kunnugt um að menn, sem hlustað hafa á fyrirlestra í frönsku við Háskólann, hafa fengið sjer aukakenslu í latínu til þess að geta fært sjer frönskukensluna fullkomlega í nyt. Þetta sannar, að það er nauðsynlegt, að þeir, sem vilja nema þessi fræði, kunni eitthvað í latínu. Það getur vel verið, að rjett væri að lögfesta kenslu við Háskólann í nýju málunum, en það hefir ekki komið til þess enn þá. En þá fyrst, er þeir menn, sem nú berjast fyrir þessu máli, greiddu atkvæði á móti slíkri tillögu, mætti bregða þeim um ósamræmi og jafnvel glámskygni í þessu máli. Jeg ætla ekki að tala um mína vísindalegu reynslu í þessum fræðigreinum, því að hún er engin, en jeg skal að eins geta þess, að jeg hefi oft haft mikið gagn og ánægju af því að lesa latneskar bækur heima fyrir. Jeg hefi fáar grískar bækur heima hjá mjer, nema Nýja Testamentið, en í þá bók hefi oft þótst þurfa að líta.

Mjer finst að þann mann vanti mikið til þess að geta heitið góður guðfræðingur, sem ekkert kann í grísku. Viðvíkjandi því að latínan hafi ekki verið undirstaða kenslunnar hjer á landi fram að 1800, heldur íslenskan, eins og háttv. 6. kgk. (G. B.) vildi halda fram, þá verð jeg að neita því, að þetta sje rjett, enda hlaut þingm. að sjá, að .svo var ekki, og hvarf hann því frá því aftur. Ef maður lítur til kenslunnar í Skálholti og á Hólum, þá sjer maður, að íslenskan var svo fjarri því að vera undirstaða kenslunnar, að hún var alls ekki kend. Að eins fór kenslan fram á íslensku. En latínan var kend svo að gagni, að menn gátu ekki gleymt henni aftur, þó þeir hyrfu út í fásinnið í sveitunum, og jeg efast um, að kenslan í nýju málunum sje jafngóð og hún var áður í latínu. Þá áttu útlendir mentamenn, sem komu hingað til lands, það víst, að geta hitt í hverju prestakalli á landinu mann, sem við þá gat talað, þar sem presturinn var, en jeg efast um, að útlendingar, sem nú koma hingað til lands, eigi þetta jafnvíst, þrátt fyrir alla kenslu í nýju málunum. Jeg veit að vísu að það eru margir, sem geta talað ensku, að minsta kosti venjulega markaðsensku, en hinir eru mjög fáir, sem tala hin höfuðmálin, þýsku og frönsku. Það er ekki svo að skilja, að jeg lasti það að nýju málin sjeu kend; jeg vil gjarnan að þau sjeu kend og kend betur en nú er gjört í Mentaskólanum. Segi jeg þetta ekki til að lasta kennarana við þann skóla. En menn gleyma þessum málum að náminu doknu, af því að þau eru ekki kend eins vel og latínan var kend áður.

Við erum annáluð söguþjóð. En hvernig væri þekkingu okkar á sögu vorri farið ef enginn skyldi latínu, því eins og allir, vita, er fjöldi af heimildarritum okkar á latínu. Hver læsi rit Arngríms lærða, kirkju- sögu Finns og Pjeturs, ef enginn skildi latínu. Hver getur haft fult gagn af ísl. fornbrjefasafni, þar sem úir og grúir af latneskum brjefum, nema hann kunni latínu. En aðalatriðið í þessu máli er þó það, að kunnátta í grísku og latínu gjörir , mönnum svo miklu auðveldara að læra nýju málin, sem allir játa að sje svo nauðsynlegt að kunna. Þó að latína og gríska, hafi ekki glætt skilning háttv. 6. kgk. (G. B.) á skólaárum hans eftir því, sem honum segist sjálfum frá, þá má hann ekki álykta af því, að þessi mál geti ekki hafa glætt skilning annara manna, og jeg verð nú að segja það, að mjer þykir mjög ótrúlegt, að einmitt þessi mál hafi ekki átt drjúgan þátt í að glæða skilning og skarpskyggni háttv. 6. kgk., þótt honum sjálfum ef til vill virðist annað. Háttv. 6. kgk. ljet á sjer skilja, að það væri enginn, sem gæti kent þessi mál við Háskólann, þótt þessi lög væru samþ. Ef svo er, þá er ekkert meira um það; þá er þetta mál þar með úr sögunni. Annars fanst mjer að öll þessi runa af fræðimönnum, sem hann taldi upp og sagði að væru færir um að kenna þessi og þessi fræði við Háskólann, kæmi málinu lítið við. Það er auðvitað ágætt að þeir menn eru fyrir hendi, ef við sjáum okkur fært að stofna til kenslu í þeim fræðigreinum við Háskólann.

Það er satt, að við erum minsta þjóðin, sem eigum Háskóla, og jeg fyrir mitt leyti var þess ekki mjög fýsandi, að hann væri stofnaður. En úr því að við erum búnir að stofna hann, þá er það mín skoðun, að við eigum að gjöra hann svo úr garði, að hann geti orðið okkur til sóma. Það sem háttv. 6 kgk. sagði, að þessi fræði, latínan og grískan, væru að detta úr sögunni, held jeg að sje ekki rjett. Það er ekki lengra síðan en 1902 að skólunum á Frakklandi var skift í 4 flokka. Í fyrsta flokknum var kend latína og gríska, í öðrum flokknum latína og nútíðarmál, í þriðja flokknum latína og náttúruvísindi, í 4. flokknum náttúruvísindi og nútíðarmál. Af þessu sjer maður að í 3 af þessum 4 flokkum voru gömlu málin kend, og í einum flokknum þar af voru þau kend eingöngu. Jeg leyfi mjer að benda á þetta vegna þess sem sagt var, að þessi mál væru að detta úr sögunni. Í Danmörku er skólunum nú skift í 3 flokka, og eru gömlu málin kend í einum af þeim flokkum. Það er því alls ekki rjett, að þessi mál sjeu að detta úr sögunni. Um hitt er jeg á sama máli og háttv. 6. kgk., að þessu máli liggur ekki á; það má vel bíða til næsta Alþingis, og það væri ef til vill rjettast, en það spillir engu, þótt málið sje rætt hjer og athugað að þessu sinni. Jeg get vel samþykt hina rökstuddu dagskrá, sem háttv. 6. kgk. kom fram með, af því að mjer er ekkert kappsmál, hvort þessi lög eru samþykt nú þegar, eða þau bíða til næsta þings, svo sem jeg þegar hefi sagt.