28.07.1914
Efri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Karl Einarsson:

Það er nú þegar búið að svara flestu í ræðu háttv. 5. kgk. (B. Þ.). En jeg vil þó taka það fram, að það er fullkominn misskilningur hans, að próf. Björn M. Ólsen hafi verið frumvarpinu mótfallinn. Á háskólaráðsfundinum greiddi hann ekki atkvæði af þeirri einni ástæðu, að hann taldi sig ekki hafa atkvæðisrjett, þar sem hann mætti þar fyrir hönd annars manns. En sjálfur er hann frv. eindregið meðmæltur.

Jeg álít, að það geti verið hættulegt, að málið dragist, ef til vill heilan mannsaldur. Hvar höfum við, ef svo færi, þá menn, sem kunna latínu og grísku? Jeg skal ekkert segja um, hve nær stjórnin hefir lokið þessum rannsóknum, sem dagskrá háttv. 6. kgk. (G. B.) ætlar henni, en slíkt tekur langan tíma, og jeg held að árangurinn verði lítill. Það er alt öðru máli að gegna um þessi fræði en um lifandi málin og önnur þau fræði, er nefnd hafa verið. Það er „praktiskt“ að lesa þau, en það verður ekki sem stendur sagt um latínu og grísku. Og það verður að muna eftir, að þær tungur eru hjálpargögn til að læra önnur fræði.

Jeg vona, að háttv. deild felli dagskrána, en samþykki frumvarpið.