05.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Björn Þorláksson:

Við 2. umræðu lýsti jeg með örfáum orðum afstöðu minni til þessa máls. Jeg leyfði mjer þá að benda á, að ef það væri tilgangurinn með frumvarpi þessu, að endurreisa forntungnanám hjer á landi, þá væri hjer byrjað á öfugum enda. Og jeg vil enn þá taka það fram, að þó að þetta frv. verði samþykt, þá er jeg sannfærður um, að afleiðingin verður ekki sú, að forntungnaþekkingin aukist til nokkurra muna hjer á landi. Jeg vil nú reyna að skýra þetta nokkru betur. Ef mönnum er það áhugamál, að endurreisa forntungurnar, þá verða menn að snúa sjerað Mentaskólanum, en ekki Háskólanum. Menn verða þá að byrja að neðan, en ekki að ofan. Jeg hygg, að þá yrði heppilegasta fyrirkomulagið, að breyta lærdómsdeild Mentaskólans þannig, að latínunám væri aukið þar og grískan tekin upp aftur. Ef þetta væri gjört yrði afleiðingin sú, að allir stúdentar fengju talsverða undirstöðu í klassískum fræðum, svo að þeir gætu haldið því námi áfram við Háskólann, ef þeim sýndist og ef þess þyrfti. En þenna kennarastól við Háskólann ætti ekki að stofna fyr en slíkt fyrirkomulag væri komið á Mentaskólann fyrir nokkru eða ekki fyrr en stúdentar kæmu frá Mentaskólanum, er mentast hefðu undir nýa fyrirkomulaginu.

Þá hygg jeg að hinn nýji kennarastóll geti náð tilgangi sínum, og þá — en ekki fyr gæti Háskólanum orðið, sæmdarauki og heiður að honum. Ganga mætti að því vísu. að þá mundu ýmsir latínu og grískulærðir stúdentar halda námi sínu áfram í öðru hvoru faginu, og þá mætti, ef þurfa þætti, gjöra guðfræðisnemendum við Háskólann að skyldu, að halda eitthvað áfram grískunámi vegna Nýja Testamentisins. Ekki mega menn skilja orð mín svo, að jeg sje hjer að koma með tillögu um að breyta fyrirkomulagi á lærdómsdeild Mentaskólans, eins og jeg hefi minst á að því mætti breyta. Jeg á ekki tillöguna um kennarastólinn, en þeir, sem hafa komið fram með hana og barist fyrir því máli, ættu að koma með tillögu þess efnis, svo að þetta mál geti komist í rjett og eðlilegt horf.

Jeg verð hjér að gjöra ráð fyrir mótmælum, sem hafin kynnu að verða gegn því, að lærdómsdeildarfyrirkomulaginu yrði breytt, eins og jeg hefi drepið á að gjöra mætti. Mótmælin eru þau, að með því yrði nemendunum gjört námið erfiðara og þyngra, og það væri ekki rjett, einkanlega er á það er litið, hversu mikil aðsókn er að Mentaskólanum. Um þetta vil jeg fara nokkrum orðum. Menn vita það, að aðsóknin að Mentaskólanum fer stöðugt vaxandi, svo að mörgum þykir nú keyra úr hófi. Ekki álít jeg þó að þetta eigi við um gagnfræðadeild Mentaskólans, því að þeir menn eru aldrei ofmargir sem afla sjer gagnfræðamentunar. En gegn um lærdómsdeildina ganga miklu fleiri menn en þarf til þess, að fullnægja embættismannaþörf landsins. Nú er hjer orðið fult af kandídötum, sem ekkert embætti hafa og ekkert hafa að gjöra. Þetta held jeg stafi af því, að ofmargir haldi áfram námi í lærdómsdeildinni. Dregur það um of menn frá verklegum störfum, þeim störfum, sem auka framleiðsluna og um leið verklegar framkvæmdir í landinu: Það mundi því vera kominn tími til að athuga, hvort ekki mætti gjöra eitthvað til þess að stemma stigu fyrir aðsókninni að lærdómsdeild Mentaskólans. Þetta mætti gjöra á tvennan hátt. Með skólagjaldi og með því að þyngja námið og gjöra það fullkomnara og erfiðara. Nú yrði námið þyngra ef grísku yrði bætt við. Jeg get ekki sjeð neitt því til fyrirstöðu, þú að námið sje gjört þyngra fyrir þá, sem ætla að verða embættismenn. Seinna námið, háskólanámið, mundi gjöra þetta nauðsynlegt og gagnlegt frá sjónarmiði þeirra, sem vilja stofna kennarastól í klassískum fræðum. Jeg segi frá sjónarmiði þeirra. Hjer er um stórkostlega breytingu á skólafyrirkomulaginu að ræða, sem þyrfti að ganga á undan framkvæmd þessa máls, sem hjer hefir verið fitjað upp á.

Jeg vona að mjer leyfist að gjöra svo lítinn útúrdúr, og það því fremur sem það er alltítt um ýmsa þingmenn, að þeir láta sjer í ræðum sínum lítt markaðan bás.

Jeg vildi að fyrirkomulag Mentaskólans væri athugað, því að þá mundi fleira vera athugað en það eitt, hvort auka beri forntungnanám í skólanum. Þá mundi einnig verða athugað, hvort ekki mætti koma á betra samræmi á milli gagnfræðadeildarinnar á Akureyri og gagnfræðadeildarinnar hjer í Mentaskólanum. Í báðum þessum skólum er kent hið sama og skólaárin eru jafnmörg. En í öðrum skólanum, Mentaskólanum, er skólatíminn 9 mánuðir árlega, en í hinum 8.

Í Reykjavíkurskólanum verða piltar því að eyða fje og tíma í einn mánuð á meðan námssveinar Akureyrarskólans geta unnið sjer inn hátt kaup. Skólatíminn ætti að vera sá sami á báðum stöðunum, þar sem piltar frá Akureyrarskóla standa jafnfætis piltum úr gagnfræðadeildinni til inngöngu í lærdómsdeild Mentaskólans. Ef nemendurnir á Akureyri læra jafn mikið á 8 mánuðum og hinir á 9, væri þá ekki sjálfsagt að stytta skólatímann í Reykjavík? Og væri ekki ástæða til að athuga, hvort ekki mætti víðar við skóla fremur stytta en lengja hinn árlega skólatíma? Við hvaða verk sem er, við andlega vinnu sem við líkamlega, skiftir mestu, að unnið sje af kappi á meðan unnið er. Árangurinn af vinnunni fer ekki eftir lengd vinnutímans, heldur eftir því, hversu vel og kappsamlega er unnið. Að vinna með hangandi hendi gefur lítinn arð, þótt lengi sje unnið. Af löngum vinnutíma leiðir, að menn venjast á að fara sjer hægt, verða snerpulausir og kapplausir, verða að slóðum. Og þetta á sjer að öllu leyti jafnt stað um bóknám, sem um líkamlega vinnu.

Jeg vil biðja afsökunar á þessum útúrdúr mínum. En það, sem fyrir mjer vakir, er að jeg vil leggja það til, að skólamál vor sjeu tekin til rækilegrar athugunar. Þetta ætti stjórnin að annast, og fela það starf hæfum mönnum. Einu sinni, fyrir nokkrum árum, var skorað á stjórnina að gjöra ráðstafanir til þess að koma á samræmi á milli gagnfræðadeildarinnar á Akureyri og gagnfræðadeildarinnar hjer, en úr því varð ekkert. Jeg vil nú nota tækifærið til þess að ítreka þessa áskorun til stjórnarinnar, og gjöri það um leið og jeg kem fram með rökstudda dagskrá er hljóðar þannig:

„Í því trausti að stjórnin taki þetta mál í sambandi við skólamál vor til rækilegrar íhugunar og sjerstaklega láti rannsaka hvort og hvernig breyta megi fyrirkomulagi lærdómsdeildar Mentaskólans, svo að stúdentar þaðan eignist haldgóða undirstöðu í klassískum fræðum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“. Þegar jeg hefi lokið máli mínu, skal jeg afhenda hana forseta. Jeg vil bæta því við, að þeir, sem berjast fyrir því, að stofnaður verði kennarastóll í klassískum fræðum við Háskólann, mættu vel una við þau úrslit, sem hjer er farið fram á, að stjórnin taki það mál til rækilegrar íhugunar og ljeti rannsaka skólamál vor, sjerstaklega hvort mentaskólafyrirkomulaginu mætti ekki breyta þannig, að gagn og sæmd verði að stofnun þessa embættis, sem hjer er um að ræða, þegar það hleypur af stokkunum.

Jeg álít farsælla að afgreiða málið á þennan hátt heldur en að hleypa því lengra. Ef við hleypum því lengra, er óvíst um örlög þess. Því getur orðið lokið á þrennan hátt. Í fyrsta lagi að það dagi uppi í neðri deild, eða verði felt þar. Það álít jeg skaða fyrir málið, ekki einungis frá sjónarmiði þeirra, sem hafa flutt þetta mál inn á þingið, heldur einnig frá mínu sjónarmiði, því að þá fengi stjórnin enga bendingu um að rannsaka skólafyrirkomulagið. Í öðru lagi getur verið að neðri deild samþykki frumvarpið og stofni þannig nýtt embætti, og álít jeg það óheppilegt, af því að það gæti ekki náð tilgangi sínum og yrði því gagnslaust. Enn fremur er hagur landsins nú svo, að ekki er viðeigandi að stofna nýtt embætti á meðan svo er ástatt.

Í þriðja lagi gæti farið svo, að neðri deild afgreiddi málið með rökstuddri dagskrá, eins og hjer er til ætlast af mjer. En er þá ekki rjettara að við gjörum það hjer í deildinni nú strax? Skal jeg svo leyfa mjer að afhenda hæstv. forseta hina rökstuddu dagskrá.