03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

120. mál, stjórnarskrá

Ráðherrann (H. H.):

Ég finn ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta mál, að svo stöddu. Frv. er öllum þm. kunnugt og kjósendur hafa víðsvegar um land, lýst yfir þeirri ósk, að það verði samþykt aftur óbreytt á þessu þingi, sem kvatt er til setu sérstaklega til að taka fullnaðarákvörðun um þetta mál. Eins og öllum háttvirtum þm. er kunnugt hafði hans Hátign konungurinn lýst yfir því, að hann mundi ekki samþykkja stjórnarskrárbreytingu, þar er ákvæðið um uppburð íslenzkra sérmála fyrir honum í ríkisráðinu, væri úr felt, nema áður hefði verið samþykt ný lög um ríkisréttarsamband Íslands og Danmerkur, er bæði alþingi og ríkisþingið hefði fallist á. En þrátt fyrir þetta lét konungurinn það að óskum Íslendinga, að hlíta þeirri málamiðlun, sem framkom og samþykt var á síðasta alþingi, að ákvæðinu um uppburð málanna í ríkisráði væri slept úr stjórnarskránni, og í stað þess lagt á vald konunga að ákveða, hvar málin skyldi borin upp fyrir honum. En jafnframt því og hann gekk að þessari miðlan lýsti hann yfir því, að hann mundi um leið og hann staðfesti stjórnarskrárbreytinguna, nota rétt þann, er 1. gr. frv. leggur honum í hendur, þannig, að ákveða í eitt skifti fyrir öll, að íslenzk mál skyldi, eins og hingað til, borin upp fyrir honum í ríkisráði hans. Og er það skilyrði fyrir staðfestingu stjórnarskrárfrumvarpsins, að Íslands ráðherra nafnsetji þann úrskurð með honum. Konungur lýsti ennfremur yfir þeim ásetningi sínum, að þá er sá úrskurður væri útgefinn, þá mundi hann í konunglegri auglýsingu, sem forsætisráðherra Dana nafnsetti, birta það í Danmörku, að hann mundi ekki samþykkja neina breyting á þessu fyrirkomulagi nema hann staðfesti lög um annað ríkisréttarsamband milli Íslands og Danmerkur, er samþ. væri af löggjafarvöldum beggja landa, þar er ný skipun væri á gerð. Til þess að íslenzkir kjósendur gengi eigi þessa duldir, þótti rétt að taka þetta skilyrði og þessa ákvörðun upp í hið konunglega opna bréf um nýjar kosningar til alþingis, er sérstaklega hnigu að spurningunni um samþykt stjórnarskrárinnar. Þetta konunglega opna bréf las eg upp hér í deildinni í fyrradag og skírskota eg til þess. Að öðru leyti álít eg óþarft að fara frekara út í málið að sinni.