05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

78. mál, sjóvátrygging

Framsögum. (Einar Arnórsson):

Það hefir verið sagt hér og haft eftir einum háttv. þm. í Ed., að þetta frumvarp sé einn grautur af hugsunarvillum og málvillum. Eg held, að þetta sé alt of harður dómur, en satt er það, að ekki er svo gott mál á því, sem skyldi. Eg ætla nú hvorki mér né nefndinni þá dul, að koma því á neitt gullaldarmál. Til þess skorti bæði tíma og ef til vill getu líka. En nokkuð hefir frumv. verið lagað í nefndinni. En annars skal eg geta þess, að þótt málið þætti ekki vel gott á þessu frumvarpi, þá er það ekki stórum verra en á mörgu öðru, sem frá þinginu kemur. Það er nú sumt hvað svo, að á því er að minsta kosti ekki nema silfuraldarmál. Eg þarf svo ekki að hafa langa framsögu. Eins og háttv. deild sér, hefir nefndin gert við frumvarpið allmargar breyt.till., en þær eru nær eingöngu formlegs efnis. (Sigurður Sigurðsson: Það mætti bera þær upp allar í einu). Það þori eg ekki að segja, en flestar af þeim eru að eins orðabreytingar.