20.07.1914
Efri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

56. mál, varnarþing í einkamálum

Framsögum. (Steingrímur Jónsson) :

Jeg hefi litlu við það að bæta, sem segir í nefndarálitinu og jeg hef þegar tekið fram við 2. umræðu. Síðan málið var síðast til umræðu hjer í deildinni, hefi jeg snúið mjer til stjórnarráðsins til þess að grenslast eftir um frumvarp það, sem getið er um í athugasemdunum við stjórnarfrumvarpið. En í stjórnarráðinu vissu menn ekkert um frumvarp þetta og er líklegast, að það sje privateign landritara. En hann er nú ekki í bænum, svo að mjer hepnaðist ekki að komast yfir frumvarpið. Nefndinni sýnist þó eigi nein ástæða til þess að skjóta málinu á frest fyrir það.

Jeg vil við þetta tækifæri að eins minnast á tvö atriði, sem jeg tel óheppileg í stjórnarfrumvarpinu. Fyrst er það, að þessi lagabreyting er ekkert annað en kákbreyting, nær altof skamt og er að sumu leyti ósanngjörn. Það er ekki sanngjarnt að leggja það á vald stefnanda, að hann megi nema burt þann rjett, sem allir hafa nú til þess að mál sje höfðað í þeirri þinghá, sem þeir eiga heima í. Þetta getur komið hart niður. Ef stefnandinn er illviljaður getur hann einmitt valið dómþinghá þá, sem sýslumaðurinn er búsettur i, ef hann heldur að hinum stefnda sje það kostnaðarsamara, en hins vegar stefnt honum í hans eigin þinghá, ef hann telur stefnda það óhagkvæmara. Þetta er óeðlilegt og óheppilegt, því að löggjöfin á eigi síður að gæta rjettar hins stefnda en stefnandans. Hitt atriðið er það, að það virðist dálítið óheppilegt að ákveða, að varnarþingið megi jafnan vera í dómþinghá dómarans, þar sem það er hvergi ákveðið í lögum, hvar dómarinn skuli sitja. Enda er það kunnugt, að það kemur oft fyrir, að sýslumenn flytja búferlum innan um¬dæmis síns, en sumir sitja ytst út við tak¬mörk þess. Það er óheppilegt að láta til¬viljan eina ráða í slíkum efnum, og vill því nefndin ráða háttv. deild frá að samþykkja frumvarpið.