20.07.1914
Efri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

56. mál, varnarþing í einkamálum

Kristinn Daníelsson:

Jeg ljet þetta mál afskiftalaust við 2. umr., því að jeg hafði þá ekki athugað frv. svo rækilega sem skyldi. Fanst það í fljótu bragði ekki skifta miklu máli, þar sem á undan eru gengin lögin 10. nóv. 1905 um varnarþing í skuldamálum. Þau mál eru vitanlega flest, og helst gat verið ástæða að losa um varnarþingsrjettinn í þeim, ef það mætti stuðla að því, að auka skilvísi. Þegar jeg sá nefndarálitið, bjóst jeg við að málið yrði felt frá 3. umr., en ráðherra mælti þá svo röggsamlega með stj.frv., að mjer fanst rjettara að athuga það betur og greiddi atkvæði með að málið gengi til 3. umr. Síðan hef jeg leitast við að íhuga það nánar, og hefi jeg komist við það til þeirrar niðurstöðu, að rjettara sje, að fella frv. Annars vegar tel jeg það geta verið varhugavert og hins vegar ekki mikla rjettarbót. Til þess, að það sjeu varhugavert, tel jeg fyrst það, að margir eru hræddir um að málaferli mundu aukast, ef frv. yrði að lögum, enda er það vitanlega tilgangur frv., að gjöra mönnum hægra fyrir að höfða mál. En þá mundi líka óþörfum málshöfðunum fjölga, og er þá vandsjeð, hvort meira á að vega hægðaraukinn að höfða nauðsynleg mál, eða hitt, að leggja höft á óþörf hjegómamál. Þetta síðara dregur að minsta kosti úr mjer að vilja samþykkja frv.

Annað, sem mjer þykir varhugavert, er sambandið við lögin 10/11 1905, þar sem frv. opnar fyrir skuldheimtumenn 3. leiðina til að stefna fyrir skuldir. Ef frv. yrði að lögum, mundi verða þrenskonar stefnuaðferð í skuldamálum. Það mætti ýmist stefna þar sem skuldin er stofnuð, eða að heimili sýslumanns eða loks samkvæmt fyrirmælum hinna gömlu laga. Stefnandinn getur því farið með hinn stefnda, ef svo mætti segja, hvert á land sem hann vill.

Hið þriðja varhugaverða er það, að vitnamál eru undanskilin, en í öllum fjölda mála þarf vitni að leiða, og þótt jeg játi, að kostnaður geti sparast báðum málsaðiljum ef sýslumaður þarf ekki að ferðast, þá kemur kostnaðurinn þó af ferð hans til vitnaprófs. Og afleiðingin af frv. þessu gæti orðið sú, að menn færu að snúa sjer til manna, sem byggju í nágrenni við sýslumann, til þess að fá þá til þess að taka mál að sjer til flutnings. Ef þeir menn svo færu að taka borgun fyrir starf sitt, þá gæti það haft aukin málaferli í för með sjer og þessir menn ýtt undir menn til málsýfinga, og mundi það ekki verða vinsælt.

Og þetta tel jeg hið fjórða, að lögin mundu verða óþokkasæl. En ef til vill ætti eigi að setja það fyrir sig, ef lögin á annað borð væru rjettarbót. En þar kem jeg að hinu öðru aðalatriði, að auk þess sem þau eru varhugaverð, tel jeg þau ekki mikla rjettarbót. Fyrir skuldamálum er áður sjeð, og þau eru flest, en um önnur mál vafasamt, hvort meira skal meta að greiða fyrir þörfum eða fyrirbyggja óþörf. Og úr því að hjer er ekki um mikla rjettarbót að ræða, finst mjer rjettara að fresta að samþykkja frumvarpið, svo að þjóðin viti, að það stendur til að breyta afgamalli venju, einkum þar sem þau að mörgu leyti eru varhugaverð. Það getur verið, að engin sú mótbára, er jeg hefi flutt gegn frumvarpinu, sje ein ærin til að fella það, en allar eru þær til samans svo þungar, að mjer virðist rjett að samþykkja frumvarpið eigi að þessu sinni, rjettara að bíða með þá rjettarbót, sem í þessu á að felast þangað til ný skipun yrði gjörð á um hæfilega stórar dómþinghár.