20.07.1914
Efri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

56. mál, varnarþing í einkamálum

Kristinn Daníelsson:

Mjer þykir leitt,. að hæstv. ráðherra var ekki inni, er jeg talaði, því að jeg gjörði grein fyrir, hví jeg greiddi ekki atkvæði um málið við síðustu umræðu, og það var af því, að einmitt orð hæstv. ráðherra gáfu tilefni til að jeg vildi íhuga málið betur. Það má líta á málið á tvo vegu. Það getur knúð menn til að gjöra málaflutning að atvinnu. Það getur verið til bóta frá sjónarmiði ráðherra. En það getur líka orðið til þess, að menn verði æstir til óþarfra málaferla. Það hefir heyrst, að málaferli hafa sumstaðar aukist, er menn, sem fengust við flutning mála, komu þangað. Þeir hafa þannig gjört meira en að bæta úr því, að menn lægju undir rjetti sínum. Jeg veit sem sáttasemjari, að það hafa verið miklu fleiri mál af þeim, sem jeg hefi fjallað um, sem mjer hefir þótt ástæða til að færu lengra en til sáttanefndar. Það var ekki rjett hjá hæstvirtum ráðherra, að jeg hefði talað um að frumvarpið væri að eins til bóta fyrir sækjanda. Um það talaði jeg ekkert. Það er auðsjeð, að kostnaðarsparnaður við málsreksturinn getur orðið hagur fyrir báða málsaðilja.

Jeg tók það fram, að yfirleitt þykir mjer svo margt athugavert við þetta frumvarp, að fyrir það alt samanlagt finst mjer rjett, að landsmenn fái að vita, hvað til stendur í þessu efni, áður en hrapað er að breytingum. Það er ekki öll nótt úti enn, þótt frumvarpið nái eigi fram að ganga á þessu þingi.