20.07.1914
Efri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

56. mál, varnarþing í einkamálum

Ráðherra (Hannes Hafstein) :

Háttv. þm. Vestm. (K. E.) gekk svo langt, að hann fullyrti, að engin bót væri að þessu frumvarpi, því að þau mál, sem kæmu fyrir, væru nálega ætíð vitnaleiðslumál, en vitnaleiðsla yrði að fara fram, þar sem vitnin ættu heima. Jeg veit vel, að þetta er mikill agnúi, þótt fjarri fari því, að vitnaleiðsla sje í hverju máli; en sami agnúi mundi koma fram, þótt lengra væri gengið, og lögsagnar umdæmin skilyrðislaust gjörð að einni dómþinghá eða skift í stórar dómþinghár, svo að mótbáran á ekki stjerstaklega við þetta frumvarp. Það er sem sje auðsætt, að það er ódýrara að gjalda einum dómara ferðakostnað en fjölda vitna fyrir sömu vegalengd. (Karl Einarsson: Þau fá enga borgun). Veit jeg vel. Þau fá enga borgun, af því það þykir forsvaranlegt að láta þetta vera borgarakvöð, þegar vitnunum er ekki stefnt út fyrir hrepp sinn. En ef lögunum væri breytt þannig, að lögsagnarumdæmin væru, einnig að því er vitnaleiðslu snertir, gjörð að einni dómþinghá, með þingstað á heimili dómara, þá gæti þetta ekki gengið; þá yrði að ákveða vitnum, sem þurfa að takast ferð á hendur, bæði ferðakostnað og dagpeninga, eins og í öðrum löndum.

Hjer yrði því um það að velja, að bæta við þeim nýja málskostnaði, borgun til vitna, eða að gjöra undantekningu um vitnamálin, annaðhvort eins og hjer er gjört í þessu frv., að láta vitnaleiðslur fara fram við hreppsþing eða heimaþing vitnis, eða þá gefa vitnastefnda kost á að velja um, hvort hann vill gjöra svo, eða borga vitnunum ferðakostnað og töf. Þessi mótbára háttv, þingmanns skýtur þannig yfir markið, og á alls ekki sjerstaklega við þetta litla frumvarp, heldur alla stækkun dómþingháa.

Jeg vissi ekki, að háttv. 2. þm. G: K. (K. D.) hefði breytt skoðun sinni síðan seinasta umræða fór fram. Sú ástæða, að menn leiðist fremur til málaferla en áður, ef frumvarpið verður að lögum, verður alls ekki notuð. Ef ætti að synda fyrir öll málaferli, væri best að hafa enga dómara. Þá væri girt fyrir að málum yrði skotið til dómstólanna.