04.07.1914
Efri deild: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

72. mál, hlutafélagsbanki

Ráðherra (Hannes Hafstein) :

Frumvarp þetta, sem fer fram á að rýmka seðlaútgáfurjett Íslandsbanka, þannig, að honum verði heimilt að gefa út alt að 5 milj. króna í seðlum, í stað 2½ miljónar, er komið fram samkvæmt óskum bankastjórnarinnar, sem hefir sýnt fram á, að viðskiftaþörfin er orðin svo mikil, að seðlaútgáfurjetturinn, sem nú er, er orðinn ófullnægjandi. Að vísu sjest ekki af reikningum bankans fyrir 1913, að þá hafi verið í umferð meira en hæst nál. 2,200 þús. kr. í seðlum, en sú tala er miðuð við mánaðarlok, og bankastjórnin hefir upplýst, að um miðjan október síðastliðinn hafi upphæðin verið komin upp undir 2½ milj., sem er hámarkið, og skall þá hurð nærri hælum.

Eiginlega virðist ekki ástæða til að setja aðrar takmarkanir fyrir seðlaútgáfu innleysanlegra seðla en þær, að eigi megi gefa út meir af seðlum en svo, að gullforði sje jafnan nægur fyrir hendi til tryggingar lögum samkvæmt. En þegar Íslandsbanki var stofnaður, var seðlaútgáfurjettur hans takmarkaður, eins og gjört var, aðallega vegna þess, að brytt hafði á þeirri mótbáru í Danmörku, að væri gefið út meira af seðlum hjer en viðskiftaþörf innanlands næmi, þá mundu íslenskir seðlar ganga í Danmörku, og þar með væri brotið bág við, einkarjett og hagsmuni Þjóðbankans danska.

Þjóðbankinn mælti með því, að upphæð seðlaútgáfunnar væri sett eftir því, sem hæst mætti áætla innlenda viðskiftaþörf í náinni framtíð, og við það var seðlaútgáfutakmarkið svo miðað; en af þeirri röksemdaleiðslu, sem þá var fylgt, leiðir, að þegar viðskiftaþörfin vex, svo að seðlafúlgan nægir ekki, verður að rýmka útgáfurjettinn, enda tók Þjóðbankastjórninn það fram, að undir eins og komið væri nálægt hámarkinu, yrði að flytja það upp á við í tæka tíð. Nú hefir öllu fleygt mjög fram í seinni tíð, því er að viðskiftum lítur. Verslunin er að verða innlend; útflutt vara hefir síðan 1904 stigið úr 8 miljónum upp í 16 miljónir króna; útfluttur fiskur úr 13 miljónum kg. upp í 60 milj. kg., og með vaxandi botnvörpuútveg og aukinni innlendri verslun vex peningaveltan í landinu stórlega.

Afleiðingarnar af því, ef bankanum væri. neitað um rýmkun á seðlaútgáfurjetti hans hlytu að verða þær, að bankinn neyddist til að neita viðskiftum eða að taka til hjálpar útlenda seðla eða útlent gull til að fullnægja þörfinni. En að fá lán í útlöndum, sem nemur allri þeirri upphæð, sem bankinn þarf umfram seðlamagn sitt, er auðsjáanlega kostnaðarsamara en að fá að eins þá upphæð, sem þarf til gullforða til tryggingar seðlum þeim, sem á þarf að halda. Stundum, þegar einhver krisis er á ferðum, gæti miklu munað, ef þá útlent fje á annað borð er fáanlegt í svip. Af þessu mundi leiða vaxtahækkun þegar peningaþörfin er mest, sem jafnan er á haustin, og gæti það komið hart niður á almenningi, og gjört nauðsynleg viðskifti ónauðsynlega erfið. Að neita um nægilegan seðlaútgáfurjett er ekki einungis til kostnaðar fyrir viðskiftamenn Íslandsbanka heldur einnig fyrir Landsbankann og hans viðskiftamenn, því Landsbankinn notar Íslandsbankaseðla án sjerstaks kostnaðar, eða í öllu falli með minna kostnaði en útlendaseðla. Jafnvel þótt um lán væri að ræða. með sömu vöxtum, er þó auðsætt vaxtatapið á útlendu seðlaláni við sendingu seðlanna landa milli fram og aftur. Jeg vona því að háttv. deild taki frumvarpi þessu. með velvild og að þetta mál gangi farsællega gegn um þingið.