21.07.1914
Efri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

72. mál, hlutafélagsbanki

Framsögum. (Kristinn Daníelsson):

Málið liggur þá fyrir til umræðu. Jeg verð að byrja framsögu mína á því að geta þess, að þótt nefnd sú, sem skipuð var í þetta mál, hafi ekki klofnað og hafi unnið í sameiningu að því verki, sem kemur fram í nefndarálitinu, þá hefir þó verið allmikill skoðanamunur innan nefndarinnar. Jeg vil taka þetta fram til afsökunar því, að jeg býst við að framsaga mín í þessu máli verði einhliða, en jeg veit að meðnefndarmenn mínir munu bæta við því, sem vantalað verður af minni hálfu.

Þetta mál, sem hjer liggur fyrir, er sannkallað stórmál það er stórt fjárhagsspursmál fyrir þjóðina í heild sinni. Það er aðallega tvent, sem gjörir þetta mál að stórmáli. Í fyrsta lagi, að þegar um seðlaútgáfurjett er að ræða, þá er hann svo mikils virði, að um leið og landið afsalar sjer honum, þá afsalar það sjer jafnframt þeim hag, er það gæti haft af þessum rjetti, en sá hagur gæti numið mjög mikilli upphæð. Í öðru lagi, að landið tekur hjer mikla ábyrgð á herðar sjer, því að það hlýtur að hafa ábyrgð á hverjum ógulltrygðum seðli, sem bankinn gefur út. Hjer er því um mjög mikilsvert fjárhagsmál að ræða, og jeg lít svo á, að þetta mál hefði að rjettu lagi átt að bera upp í neðri deild, samkvæmt anda 25. gr. stjórnarskrárinnar, sem að vísu ákveður ekki beinlínis annað en að fjárlög og fjáraukalög skuli borin upp í neðri deild. En þetta mál mundi geta tekið mjög til fjárlaga ef svo bæri undir, og því hefði verið eðlilegt að það hefði fyrst verið borið upp í neðri deild. Segi jeg þetta meðfram því til afsökunar, að ummæli mín að öðru leyti kynnu að þykja koma nokkuð í bága við þessa niðurstöðu, sem við tveir höfum komist að, að rjett sje að leyfa máli þessu að ganga hjér fram og komast til neðri deildar, svo að það fái þar sköpuð örlög sín. Þá voru og ýms atriði, sem við gátum samsint með meðnefndarmönnum okkar, og vildum síst hafa álit þeirra að engu, ekki síst þar sem þeir líklega eru, eða að minsta kosti einn þeirra, er bankafróðari maður en við.

Nefndarmenn eru allir sammála um það, að þinginu sje skylt að hafa opin augu fyrir viðskiftaþörf landsmanna og að stuðla að eflingu atvinnuvega landsins, og fyrst, þegar til þess útheimtist aukin seðlaútgáfa, er kominn tími til þess að athuga með hvaða skilmálum beri að láta hana af hendi. Allir nefndarmenn eru einnig sammála um það, að viðskiftaveltan í landinu hefir aukist stórum síðan 1901, þegar ákveðið var, hve mikið Íslandsbanki mætti gefa út af seðlum, enda var þá litið svo á, að sú upphæð, sem bankanum var leyft að gefa út af seðlum, mundi endast, þótt viðskiftaþörfin í landinu ykist allmikið. Þjóðbankinn danski gaf þá allítarlegt álit um málið, sem var talið mjög gott og í mörgu farið eftir, og áætlaði hann að nóg mundi vera að byrja með 2 milj. Um hitt erum við nefndarmennirnir aftur ekki eins sammála, hvort nauðsyn sje að auka seðlaútgáfurjettinn nú þegar. Við tveir, sem erum í minni hluta í nefndinni, erum ekki fyllilega sannfærðir um að tími sje kominn til þess að auka hann þegar í stað. En sje svo að okkur missýnist og að tími sje nú kominn til þess að auka þegar seðlaútgáfurjett Íslandsbanka, svo að annars mætti búast við að færi að kreppa að atvinnuvegum landsmanna, þá erum við nefndarmennirnir allir sammála um, að þá sje þó eigi rjett að auka seðlaútgáfurjettinn upp í 5 miljónir, eins og farið var fram á af stjórn bankans og af landsstjórninni, heldur að rjett sje að miða hafa við, hvað viðskiftaveltan gæti borið mikið af seðlum. En nefndin eða meiri hluti hennar leit svo á, að meira en 2 milj. af seðlum mætti eigi vera ómálmtrygt.

Þessi tillaga nefndarinnar fer því í þá átt, að láta seðlaútgáfuaukann óákveðinn og miðast við það annars vegar, hvað viðskiftaþörfin krefur, og hins vegar, að hæfileg trygging sje sett fyrir aukningunni. Eins og sjest af nefndarálitinu, hefir oss þótt hæfilegt að ákveða, að seðlaupphæð sú, sem úti er í hvert skifti, fari ekki meira en 2 milj. króna fram úr verði málmforðans, sem bankinn hefir. Með sömu málmforðatrygging og bankinn hefir nú, gæti hann þá gefið út 700,000 kr. meira í seðlum en nú. En ef honum væri leyft að gefa út 5 milj., þá væru 3,125,000 kr. umfram málm. Ef honum leyfðist að gefa út 2½ milj. fram yfir málmforðann, þá gæti hann gefið út 4 milj. í seðlum og væri

þá seðlaútgáfan aukin um 1½ milj. kr. fram yfir það, sem nú er. En ef gefnar væru út 3 milj. fram yfir málmforða, þá yrði seðlaútgáfan 4 milj. og 800 þús. kr.

Nefndinni virtist ógjörningur að auka seðlaútgáfurjett bankans meira en þetta. Og jafnvel þessi aukning þótti henni mjög varhugaverð og betur að hjá henni yrði komist. Landið ætti að hafa meira upp úr seðlaútgáfurjetti sínum en það hefir. Að vísu hefir Íslandsbanki einkarjett til seðlaútgáfu hjer á landi, svo að landssjóður getur ekki sjálfur gefið út seðla, nema samkomulag yrði við bankann. En þó er sá rjettur bankans takmarkaður, og þegar að því er komið að auka rjettinn út yfir þau takmörk, þá er tilefni komið til að taka til vandlegrar íhugunar, hvernig það eigi að gjöra, svo að landinu sje mestur hagur að. Hitt er þó enn þá varhugaverðara, að með aukinni seðlaútgáfu gengur landssjóður í aukna ábyrgð, því að hann hlýtur, eins og ég hefi áður sagt, að ábyrgjast hvern ógulltrygðan seðil. Þótt hann væri ekki lagalega skyldur til þess, þá gæti hann ekki staðið sig við annað; honum yrðu það hin mestu traustsspjöll, ef hann reyndi að skjótast undan þeirri siðferðisskyldu. En hann mun einnig að lögum vera skyldur til þess, því að seðlarnir eru með lögum gjörðir að gangeyri, gjaldgengir sem gull væri, og því mun svo álitið af flestum, að landssjóði bæri skylda til þess að leysa þá inn, ef á þyrfti að halda. Slík ábyrgð er í mesta lagi varhugaverð og ætti að hvetja menn til þess að búa svo rækilega og tryggilega um þetta mál, sem frekast er unt. En þess sýnist ekki hafa verið gætt sem skyldi, eða eins og til var ætlast í upphafi. Sumt í álitsskjali Þjóðbankans danska, sem sjálfsagt þótti og stofnendur Íslandsbanka þóttust geta felt sig við, hefir ekki verið haldið. Jeg get t. d. mint á, að samkvæmt álitsskjalinu átti málmforðinn ekki að vera minni en 50%. Í brjefi dags. 29. jan. 1901 fjellust stofnendur Íslandsbanka á þetta, en þó varð hitt ofan á, að málmforðinn var ekki ákveðinn hærri en 3/8. Þá var og í álitsskjalinu varað við því, að bankinn tæki á móti sparisjóðsfje, með því að það yki ábyrgð bankans og þá um leið landssjóðs. Var það tekið fram, að hættast væri við aðsúg að sparisjóðsinnlögum og gæti það hæglega komið bankanum í klípu. Stofnendur Íslandsbanka voru líka sömu skoðunar. En nú liggur alt að því 2/4 milj. í sparisjóðsfje í bankanum. Trygging fyrir því er talið aktíufje bankans, 3 miljónir, eins og það væri trygging fyrir sparisjóðsfjenu einu, en það á þó að sjálfsögðu þar að auki að tryggja aðrar skuldbindingar bankans. Það getur vel verið, að engin hætta stafi af þessu, meðan sú stjórn er við bankann, sem nú er. Það get jeg ekki dæmt um, en hjer er ekki farið eftir þeim varúðarreglum, sem mönnum þóttu sjálfsagðar í upphafi. Það virðist mjer að menn eigi að taka til athugunar við slíkt tækifæri sem þetta. — Eftirlitið með bankanum af landsstjórnarinnar hálfu hefir og orðið fremur lítið í reyndinni. Bankaráðið, sem mun hafa verið hugsað að ætti að tryggja innlend yfirráð yfir bankanum, hefir mjög lítil afskifti af honum. — Eitt af ráðum Þjóðbankans var þetta : „at der af Hensyn til Sedlernes Sikkerhed drages ret snævre Grænser for Bankens Deltagelse í Forretningsforetag- Í ender“. Þessa ráðs hefir sýnilega ekki verið gætt. Þvert á móti hefir bankinn orðið fyrir tjóni fyrir hluttöku í verslunarfyrirtækjum, og nægir í því efni að minna á miljónafjelagið. Endurskoðendur bankans gjörðu þá athugasemd við síðasta ársreikning hans, að það tjón, sem hann hafi beðið, hafi ekki hnekt áliti hans; en það eitt, að endurskoðendurnir þóttust þurfa að gjöra þessa athugasemd, bendir þó þá átt, að álitið á bankanum hafi ekki verið sem best hjá sumum. Enda er víst einhver orsök til verðfallsins á hlutabrjefunum. Þetta snertir bæði beinlínis og óbeinlínis ábyrgðarhluta landssjóðs, og þarf því að takast til athugunar.

Nefndin þorir ekkert um það að fullyrða, hvað mikil eða hvað lítil nauðsyn sje til þess að auka seðlaútgáfuna. Minni hlutinn er ekki fullkomlega sannfærður um þá nauðsyn, en vill þó ekki neita, að nokkur brögð kunni að vera að henni, og því höfum við dregist á að auka seðlaútgáfuna í þessari takmörkuðu mynd, og vil jeg leyfa mjer að skírskota um það til nefndarálitsins. — Seðlaumferðin hefir verið hæst í síðastliðnum október; þá voru úti 2,105,285 kr. í seðlum. En í mars var ekki meira úti en 1,201,910 kr. Ef bankinn þyrfti í svip á seðlum að halda, þá gæti hann gripið til þess úrræðis að útvega sjer útlenda seðla, eins og Landsbankinn stundum hefir orðið að gjöra. Auðvitað hefir það meiri kostnað og minni hag í för með sjer heldur en ef ekki þarf annað en að undirskrifa nýja seðla, en ábyrgðarhluti landssjóðs verður minni.

En svo er ennþá eftir eitt úrræði. Bankinn gæti aukið hlutafje sitt, enda hefir honum verið heimilað það með lögum frá 22. nóv. 1907. Bankinn hefir ekki notað sjer þessa heimild. Sje það vegna þess að hlutabrjef hans eru í svo lágu verði, þá sýnist það varhugavert fyrir landssjóð, að seðlaútgáfan sje aukin. Það virðist, ef satt skal segja, eðlilegast, að hlutafjeð væri fyrst aukið, en lágt verð hlutabrjefanna ekki gylt með aukinni seðlaútgáfu eða því óhaggaða trausti þingsins, sem henni felst.

En sje seðlaútgáfuaukningin nauðsynleg frá þessari hlið skoðað, til þess að bjarga eða halda við öryggi bankans, þá verður að athuga alt, sem þar að lýtur, nákvæmlegar, því að öryggi bankans er sama sem öryggi landssjóðs, þar sem landssjóður ber ábyrgðina. En með þetta fyrir augum höfum við ekki viljað fella frv. með harðneskju.

Jeg skal svo ekki að sinni fara fleirum orðum um þetta mál. Jeg get endurtekið, að jeg er ekki bankafróður maður, og því ekki að vænta að jeg geti rætt þetta svo röksamlega sem skyldi, en vona þó, að jeg hafi bent á ýms atriði, sem vert er að athuga.