21.07.1914
Efri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

72. mál, hlutafélagsbanki

Framsm. (Kristinn Daníelsson) :

Jeg ætla ekki að bæta miklu við það, sem jeg sagði um málið í framsöguræðu minni, því að eftir ræður þær, sem haldnar hafa verið, standa öll þau meginatriði, sem jeg tók fram, óhögguð. Hv. 3. kgk. (Stgr. J.) sneri sjer mest að þeirri hlið málsins, hve brýn þörf væri á því, að vinda bráðan bug að því, að auka seðlaútgáfurjett bankans. Jeg neita því ekki, að þessi þörf kunni að vera nokkur; enda var það einasta ástæðan til þess, að jeg gat fylgt nefndinni að málum um þá niðurstöðu, sem hún komst að. Hafi hv. þm. (Stgr. J.) fundist jeg gjöra heldur lítið úr þörfinni á aukinni seðlaútgáfu fyrir Íslandsbanka, þá er jeg aftur á móti hræddur um, að hann hafi gjört helst til mikið úr henni og þýðingu hennar; hefir hv. þm .Vestm. (K. E.) stutt þar mitt mál.

H. 3. kgk. (Stgr. J.) þótti það ekki rjett athugað hjá mjer, að mál þetta hefði átt að vera tekið fyrst fyrir í hv. Nd. Jeg taldi það aldrei beinlínis skyldu, en langeðlilegast finst mjer að svo hefði verið og samkvæmast anda stjórnarskrárinnar. Hv. þm. (Stgr. J.) bar það fram máli sínu til stuðnings, að hjer væri ekki um nein nýmæli að ræða, því að þegar hefði Íslandsbanka með lögum verið veittur seðlaútgáfurjettur. Þetta er að vísu rjett, en rjettur þessi var takmarkaður og bundinn við vissa upphæð, sem ekki má fara fram úr, nema nýtt leyfi komi til. Nú er svo komið, að bankinn óskar eftir að mega fara út fyrir þessi takmörk, og á undir högg að sækja, hvort þingið vill veita heimildina eða ekki. Bankinn og landið koma hjer fram sem tveir aðiljar til að semja um aukinn seðlaútgáfurjett bankans, og með hvaða kjörum leyfið skuli veita, ef til kemur. Hjer er því óneitanlega um fjárhagnaðarmál fyrir landssjóð að ræða, og af því finst mjer eðlilegast að það hefði fyrst verið lagt fyrir hv. Nd.

Í sambandi við þetta mál sýnist mjer þörf á að renna einnig augum til landsins eigin banka. Fyrst það varð úr, að hann fjekk að halda lífi, þegar Íslandsbanki var stofnaður, þá finst mjer það skylda þings og þjóðar að hlynna sem best að þessu barni sínu; og nú, er veita á Íslandsbanka ný hlunnindi með því að auka seðlaútgáfurjett hans, þá er vert að athuga það vel, hvort eigi sje hægt og gjörlegt að láta Landsbankann verða aðnjótandi einhverra beinna eða óbeinna hagsmuna af þessu. Hv. 3. kgk. (Stgr. J.) vildi bera dálitlar brigður á það, sem jeg sagði, að landssjóður tæki upp á sig ábyrgð við það að aukinn væri seðlaútgáfurjettur Íslandsbanka. Þó taldi hann, að það mundi af annari hálfu hollast fyrir landið og lánstraust þess út á við, að það ljeti aldrei til þess koma, að seðlar bankans mistu verðgildi sitt. Verður því niðurstaðan hjer lík hjá okkur báðum. Það getur verið, að mjer skjátlist í því, að landssjóður beri lagalega ábyrgð á seðlum Íslandsbanka, en þó veit jeg að sumir laga• menn líta þannig á 8. gr. bankalaganna, þar sem stendur, að seðlar Landsbankans og seðlar Íslandsbanka skuli vera hinir einu seðlar, er gilt geti manna á milli og sem tekið skuli við í opinber gjöld, sem gull væri, að með þessu sje landssjóði lögð sú skylda á herðar, að ábyrgjast öllum handhöfum seðlanna þá sem gull væri. Það var alls eigi meining mín, að jeg vildi gjöra lítið úr endurskoðun hv. 1. kgk. (J. H.) í Íslandsbanka; jeg efast ekki um að hann framkvæmi hana með sinni alkunnu embættisskyldurækt og samviskusemi. Jeg átti ekki heldur við það, heldur hitt, að endurskoðendurnir, og jafnvel hinir þingkosnu bankaráðsmenn líka, muni litlu geta ráðið um stjórn bankans, og að þaðan sje þess vegna að því leyti um litla tryggingu að ræða.