23.07.1914
Efri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

72. mál, hlutafélagsbanki

Karl Einarsson:

Jeg á hjer svolitla breytingartillögu og hafði jeg þegar málið var hjer til 2. umr. gjört ráð fyrir að koma fram með hana. Jeg hefi í tillögunni farið eins skamt eins og jeg áleit rjett að fara skemst, þ. e. a. s, gjört það að skilyrði fyrir auknum seðlaútgáfurjetti, að bankinn auki hlutafje sitt í sama hlutfalli. Ef tillagan verður samþykt, þá verður hlutfallið á milli seðlaútgáfuaukningarinnar og hlutafjáraukningarinnar nærri hið sama, þó það reikningslega verði ekki alveg hið sama. Ef frumv. þetta verður að lögum, þá hefir þingið sýnt bankanum mikið traust, enda býst jeg við, að bankinn standi vel að vígi, því að þó hann hafi beðið tjón á einstökum viðskiftum, þá hefir hann ekki tapað á viðskiftum sínum yfirleitt. Það tap, sem bankinn hefir beðið, stafar af því, að hann hefir lánað fjelagi, sem „spekulerar“ með fisk, en fiskmarkaður er jafnan nokkuð valtur. En þegar svona vill til, þá byrjar sá orðrómur, að eitthvað muni vera athugavert við bankann yfirleitt, en það þarf ekki að vera. Væntanlega verður bankastjórnin varkárari með að lána framvegis en hún var í skiftum sínum við þetta fjelag.

Að þingið fyrirvaralaust og ástæðulaust fari að auka seðlaútgáfurjett bankans, án þess að nokkuð komi í staðinn, álít jeg ekki rjett. En jeg vil ekki fella frumv. þegar það er komið fram, vegna þess að það gæti skaðað álit bankans. En þó það skilyrði sje sett í lögin, að bankinn auki hlutafje, þ. e. a. s. veltufje sitt, þá getur það ekki skaðað álit hans. Ef stærstu hluthafar bankans, Centralbankinn í Kristjaníu og Privatbankinn í Höfn, vilja styrkja hann og álíta að hann standi föstum fótum, þá geta þeir vel aukið hlutafje hans. Ef nú þessir bankar gjörðu það og þingið samþykkir þessi lög, þá hefir Íslandsbanka verið sýnt það traust, að allar hviksögur um hann ættu að hverfa; hlutabrjef hans. ættu að stíga í verði og þá ætti að vera hægt að auka hlutafje hans enn meir en hjer er gjört ráð fyrir. Jeg ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, en vil aðeins taka það fram, að atkvæði mitt með þessu frv. er bundið því skilyrði, að brtt. verði samþ.