23.07.1914
Efri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

72. mál, hlutafélagsbanki

Júlíus Havsteen ; Háttv. framsögum. (K. D.) heldur því fram, að það sje skylda bankans að auka hlutafje sitt. En það stendur hvergi. Hann byggir það víst á auglýsingu frá 30. jan. 1909. En í lögum, sem þessi auglýsing styðst við, frá 29. nóv. 1907 um breyting á lögum nr. 66, frá 10. nóv. 1905, er að eins talað um heimild til að auka hlutafjeð. En þá á hlutafjelagsfundi, er haldinn var 1908, var samþykt að hækka hlutafjeð um eina miljón. En þá stóð öðru vísi á en seinna. Það hefðu verið vitlausir menn, sem þá hefðu farið að auka hlutafjárupphæðina, því að þá voru peningahorfur hinar verstu. Það kom þá „krok“, eins og menn muna. Ef það er skylda að auka hlutafjeð, hvernig vill framsögumaður fá bankastjórnina þá til þess? Það þætti mjer gaman að vita. Ætlar hann að höfða mál gegn þeim? Jeg vil því biðja háttv. deildarmenn að halda þessari spurningu um aukning hlutafjárhæðinnar fyrir utan spurninguna um aukning seðlafúlgunnar. Hlutabrjefafúlgan kemur alls eigi þessu máli, sem hjer liggur fyrir, neitt við.