24.07.1914
Efri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

72. mál, hlutafélagsbanki

Karl Einarsson:

Það er misskilningur háttv. þm. Ísfjk. (S. St.), að hjer sje tekinn aftur nokkur einkarjettur, er bankinn hefir fengið, ef breytingartillaga mín verður samþykt. Það gat skilist svo eftir breytingartillögu minni, eins og hún lá fyrir deildinni í gær, en nú er með breytingartillögu við hana búið að girða fyrir, að hún verði skilin svo.

Það hefir fengist vitneskja um að þessi seðlafúlga, er bankinn hefir heimild til að gefa út, er nægileg, hefir verið nægileg, og eigi fyrirsjáanlegt annað en hún verði nægileg á þessu ári og næstu árum, nema ef vera kynni að eins einn mánuð á árinu. Þá getur hver maður sjeð, hvaða áhrif það hefir á „diskontona“, þótt frumvarpið verði ekki að lögum. Jeg ætla að taka það fram einu sinni enn, að seðlar eru ekki veltufje og að seðlar fullnægja ekki viðskiftaþörfinni í þeim skilningi, að ráðist verði í nein fyrirtæki með þeim. Ef bankinn aftur eykur hlutafje sitt, eykst veltufje hans. Ef bankinn fer að nota seðla sem veltufje, þá er það örþrifaráð.

Þá hefir það verið sagt; að umræður um málið hjer í deildinni hentu á vantraust á bankanum þær ástæður, sem færðar hafa verið gegn breytingartillögu minni, hafa verið bygðar á vantrausti á honum, en jeg og fylgismenn tillögunnar höfum eigi viljað gjöra það. En það er ekki enn þá framkomin nein ástæða til að hafa slíka ótrú á honum, sem fram hefir komið hjá sumum háttv. ræðumönnum, því að þótt bankinn hafi beðið nokkurt tjón, er ekki gjörandi ofmikið úr slíku; hann getur eigi að síður staðið sig vel; hann á óflugan varasjóð og hann hefir væntanlega ýms góð sambönd. Og það er ekki rjett að tala um það opinberlega, hvort einhver stofnun standi sig vel eða eigi. (Sigurður Stefánsson: Hver er að því?) Það er gjört, er talað er um. hve hlutabrjefin sjeu í lágu verði, og að ómögulegt sje að selja þau, jafnvel fyrir ekki neitt. Það hafa engar sannanir verið færðar fyrir því, að þetta sje rjett.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál.