11.08.1914
Efri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

72. mál, hlutafélagsbanki

Steingrímur Jónsson :

Eins og menn sjá á nefndarálitinu og komið hefir líka fram í ræðu háttv. framsm. (K. D.) er ágreiningur um málið meðal nefndarinnar. 3 nefndarmenn vilja samþ. það óbreytt.

Frv. er allmjög breytt frá því sem var, er það fór hjeðan. Þá var það áformið að búa til varanlegt fyrirkomulag, sem þyrfti ekki að breyta í bráð, þótt það ætti varla að standa óhaggað, þar til er seðlaútgáfurjetturinn væri útrunninn. En þá var fyrir aukningu seðlaútgáfurjettarins sett það , skilyrði, er gjörðu bankanum ókleift að hagnýta sjer heimildin, að minsta kosti fyrst um sinn, meðan verðbrjefin eru í svo lágu verði. En nú hefir skilyrðunum verið breytt. Nd. hefir viðurkent, að þörfin á aukningu seðlaútgáfunnar væri svo brýn, að hún, hefir ekki sett slík skilyrði, en hefir hins vegar ekki viljað neita aukning seðlaútgáfurjettar til frambúðar, en talið sjálfsagt, vegna brýnnar þarfar, að veita hann til bráðabirgða. Rjettur sá, sem hjer er veittur, er aðeins veittur til eins árs. Ef venjulegar kringumstæður væru fyrir hendi, mundi mjer liggja í ljetttu rúmi, hvort frv. væri samþ. eða ekki. Íslandsbanki er svo vel stæður, að hann gæti útvegað sjer útlenda seðla á næsta hausti, ef ófriðurinn tálmar því ekki.

En jeg hugsa að enginn geti sagt um hvernig ófriðurinn horfir við, þegar komið er fram í október og mest er þörf fyrir seðla hjer á landi. En eitt er víst, að nú sem stendur er ómögulegt að fá þessa seðla frá útlöndum, þótt bankinn eigi þar inni. Spursmálið er þetta, hve mikil þörfin er, Miklar líkur til að 2½ milj. kr. muni ekki nægja, og fyrir mjer er engum vafa undirorpið, að svo er. Jeg hefi fengið að vita hjer um bil hve mikið hafi verið farið út úr bankanum af seðlum fyrir nokkrum dögum, og munu nú ekki nema rúmar 200 þúsundir óútfarnar. En jeg skal geta þess, að allmikið af þessum seðlum hefir verið sent til útibúanna, en þó mun það eigi meira en þau þurfa.

Það er svo langt frá að ófriðarhættan dragi úr seðlaþörfinni, heldur hefir hún einmitt aukið hana. Dýrtíðin heftir eðlileg viðskifti og gerir það að verkum, að einstaklingarnir þurfa að draga sína skildinga saman og burt úr bönkunum, og er þá illa farið, ef gjaldtregða er á. Þörfin er augljós nú, og svo mikil, að full nauðsyn er á, að auka seðlaútgáfurjett bankans. Það er hverjum manni bert. Þarf ekki að fara lengra en að vísa til atkvgr. Nd. í gær um málið, þar sem það var, þrátt fyrir harða mótspyrnu, samþ. með 20 atkv. gegn 4. Sýnir þetta augljóslega, að Nd: er í engum vafa um að þörfin er fyrir hendi og brýn nauðsyn er á aukinni seðlaútgáfu, til að afstýra teppu í viðskiftum, sem gæti haft alvarlegar afleiðingar, ef ekki voða í för með sjer. Svona skil jeg ástæður Nd. og fylgdist eg alveg með í umræðunum þar.

Ég drap á það áðan, og endurtek það nú, að þessi ótti hjá mjer og öðrum stafar af stríðshættunni. Þegar truflun kemst á hið venjulega líf, verður meiri þörf fyrir gjaldeyri en ella. Venjulega reyna menn að komast af með sem minst af seðlum, en nú verður þörfin meiri, af því að viðskiftin ganga ekki eins liðlega. Hjer í Reykjavík hafa menn gripið til sparisjóðspeninga, og peningar á þann hátt dregist hjer út úr bönkunum. Eins mun fara um verslunina. Ef að vantar reiðupeninga, bætist teppa í viðskiftum ofan á. Kaupmenn geta ekki keypt hinar framleiddu vörur og kaupendur ekki borgað. Þetta getur leitt af því, að seðla vanti í landinu, og er það áreiðanlegt, að sú hætta er mjög athugaverð.

Svona vakir þetta fyrir þeim, sem fróðari eru en við um þetta. Í blöðunum má sjá, að menn hafa gripið til þess ráðs, að losa bankana við að hafa gulltryggingu, seðlarnir gjörðir óinnleysanlegir — sumpart til þess að gefa út nýja seðla. Í Danmörku var Nationalbankinn leystur undan þeirri skyldu, að innleysa seðla sína með gulli. Ríkið hefir og gefið út sjerstaka seðla sem gjaldeyri.

Spurningin í þessu máli er: Hvar er hættan við það að auka seðlaútgáfurjett bankans, eins og nú er farið fram á ? Með mínum besta vilja sje jeg hana ekki, og jeg get ekki sjeð að neinn hafi bent á hana. Hvað getur verið á móti því, að bankinn fái að gefa út þessa seðla? Hvar getur hættan verið, ef bankinn tryggir seðlana á þann hátt, sem fullnægjandi þykir? Og þegar stríðið er úti, verður sjeð fyrir því, að gulltryggingin verði í lagi, og að bankinn geti ekki notað þessa heimild lengur en meðan þörfin er.

Framsögum. (K. D.) fullyrti, að því hefði verið slegið föstu í Nd., að ekki mætti auka seðlaútgáfurjettinn, nema jafnframt væri gjörð gagngjörð breyting á fyrirkomulagi bankans. Þetta er ekki rjett. Þar var engu slegið föstu öðru en því, að hjer væri að eins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða. Menn hafa ekkert um þetta sagt; en það kom berlega fram í umræðunum, að þeir álitu að breytingin á fyrirkomulagi bankans stæði í engu sambandi við það, hvort aukinn væri seðlaútgáfurjetturinn eða ekki. Hjer var eingöngu um það ræða, hvort þjóðarþörfin heimtaði að útgáfurjetturinn væri aukinn.

En háttv. framsögumaður (K. D.) tók það fram, að,ekki væri meiri, heldur minni, seðlaþörf vegna stríðsins. Jeg hefi nú ekki mikið bankavit, en þetta er að minni meiningu þveröfugt, eins og jeg þykist hafa sýnt fram á. Minni þörf er fyrir seðla, þegar viðskiftin ganga sem liðlegast, alt gengur sem greiðast. Þegar teppan kemur, þá kemur þörfin.

Jeg vil fullyrða, að stríðið, meðan það ekki hnekkir velmegun okkar í stórum stíl, eykur einmitt peningaþörfina. Dæmi annara þjóða sýna hið sama.

Þá gat háttv. framsögum. (K. D.) þess, að þetta væru ekki bráðabirgðaákvæði, heldur ættu að gilda áfram. Jeg veit ekki hvar háttv. framsögum. (K. D.) hefir augun. Jeg sje það ekki.

Frumvarpið, sem fór frá þessari deild, var ekki bráðabirgðaákvæði, en það, sem kemur aftur frá neðri deild er bráðabirgðaákvæði, þar sem segir beinlínis í frumvarpinu sjálfu, að lögin gildi ekki lengur en til októberloka 1915.

Það má vel vera rjett, að það lýsti ekki neitt sjerlega miklu trausti á Íslandsbanka, ef þingið 1915 ljeti líða um dal og hól og ljeti þessi lög ganga úr gildi. En hjer er ekki um það að ræða, heldur hitt, hvað nauðsynlegt er fyrir þjóðarþörfina og fyrir bankann sem þjóðnýta stofnun.

Því er líkt farið um mig og um alla þá, sem um málið fjölluðu í Nd., að mjer finst þörfin svo brýn, að allmikill ábyrgðarhluti væri að synja þessum lögum framgangs, og jeg vil ekki að það sje á minni ábyrgð, eða minna skoðanabræðra. Heldur ekki er það á ábyrgð þeirra 20 í Nd., sem greiddu frumvarpinu atkvæði, ef tjón skyldi af hljótast, að frv. nái ekki fram að ganga.

Jeg vona að deildin lofi frumvarpinu fram að ganga. En þar í liggur fyrst og fremst að dagskráin verði feld.

Jeg skal að endingu benda á það um Íslandsbanka, að án samninga við hann er ekki hægt að setja honum þessi skilyrði.