11.08.1914
Efri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

72. mál, hlutafélagsbanki

Júlíus Havsteen:

Hv. ræðum„ sem nú settist niður (Stgr. J.), gat þess, að mál þetta hefði fengið þá útreið í neðri deild að 20 greiddu atkvæði með því en 4 á móti. Og þó að efri deild greiddi atkvæði með því, yrðu þeir samt undir þessir fjórir, hverjir sem þeir eru.

Aðaltalsmaður þeirra hjer er framsögumaður minni hluta nefndarinnar, háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.).

Hann byrjaði á því í þessu máli, að vera því nokkuð fráhverfur. En nefndarálit vort 16. júlí hefir hann þó undirskrifað, eins og nefndin skildi við það, og ekki skrifað undir með neinum fyrirvara.

Jeg skil ekki í honum, sem er heiðvirður maður og þar að auki prestur vor í þjóðkirkjunni, að hann skuli ekki vilja standa við undirskrift sína.

Hann var þegar við 2. eða 3. umræðu með því skilyrði, sem háttv. þm. Vestm. (K. E.) kom með, og sem gjörði alveg ómögulegt að hagnýta sjer seðlaútgáfurjettinn, og með því stóð hann þá þegar ekki við orð sín. Málið komst fram í Nd., en þar var þetta skilyrði felt.

Nú kemur hann með tillögu til dagskrár, til þess að eyðileggja frumvarpið, sem, eins og það liggur fyrir frá neðri deild, veitir bankanum aukinn seðlaútgáfurjett, og byggir á nefndaráliti úr Nd. Þetta einkennilega nefndarálit virðist beinlínis ganga út frá því, að löggjafarvaldið geti breytt „koncession“ eða heimildarskjali Íslandsbanka án samþykkis hans; heimildareða rjettarskjal þetta er gefið til 30 ára, hvar af eru að eins 10 ár liðin. Jeg veit nú að vísu eigi, hvort þetta er meining háttv. framsögumanns (K. D.), en hvort sem er, gengur hann með dagskrártillögu sinni ofan í undirskrift sína á nefndaráliti Ed. frá 16. júlí.

Með leyfi hæstv. forseta vildi jeg leyfa mjer að lesa hjer upp það sem hann hefir skrifað undir:

„Með þessum athugasemdum til íhugunar fyrir háttv. deild, álítum við þó rjettara, að hindra það eigi, að frumvarpið fái að ganga til háttv. neðri deildar, og höfum, eins og að framan er getið, orðið ásáttir við meðnefndarmenn okkar, að ráða til að samþykkja það með eftirfarandi breytingum“.

Og þarna stendur nafnið. Hjer hefi jeg það: Kristinn Danielsson, skrifari og framsögumaður.

Þar sem það er beint tekið fram í frumvarpinu frá Nd., að lögin gildi að eins til loka októberm.1915, finst mjer nokkuð hart af honum að kalla þetta „humbug“. Jeg hygg að neðri deild sje fullveðja um það, sem hún gjörir, og engin undirhyggja sje í þessu máli frá hennar hálfu. Og spádóm framsögum. (K. D.) gef jeg ekki túskilding fyrir. Nei.

Jeg veit ekki hvaðan þessi andróður kemur móti frumvarpinu. Svei mjer ef jeg get skilið það. (Sigurður Stefánsson: Frá Landsbankastjórunum?) Já. Þar hófum við það ef til vill. En jeg vil nú ekki tala meira um það; það gæti orðið of persónulegt.

Nú stendur svo á, að menn þurfa á veltufje að halda, og jeg hefði haldið, að á svona tímum væri best að eiga eitthvað. Jeg hefi aldrei heyrt það fyrri, að undir slíkum kringumstæðum væri best ekkert að eiga.

Við segjum í öðru orðinu, að við viljum leiða gullstraum inn í landið, en þegar til kemur, viljum við ekkert gjöra, heldur hindra það. En þetta er sprottið af meinsemi, og það er ekkert í veröldinni, sem mjer er ver við en meinsemina.

Eins og frumvarpið kemur frá Nd. ætti það að fá fram að ganga. Það álít jeg sæmilegast og best, bæði fyrir landið og Alþingi.