11.08.1914
Efri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

72. mál, hlutafélagsbanki

Karl Einarsson:

Jeg tók eftir því, að fyrsta röksemd háttv. 3. kgk. (Stgr. J.) var það, að kostnaður við að útvega útlenda seðla væri ekki svo tilfinnanlegur, en nú væri ekki hægt að fá þá. En jeg man glögt eftir því, að einmitt þetta, um kostnaðinn, var aðalástæðan, sem hann færði fram, þegar frumvarpið var hjer til umræðu í sumar, og þá var ekkert stríð og enginn talaði um stríð. Jeg nefni þetta að eins sem dæmi um röksemdarfærsluna.

Sami þingmaður sagði, að mest af seðlum bankans væri úti, svo að ekki væru óútgefnar nema 200 þús. kr. En í einu aðalblaði bæjarins segir fyrir skemstu, að Íslandsbanki ætti inni erlendis 1,400 þús. krónur. Ef hann dregur til sín eitthvað af þeirri inneign, þá getur hann sparað sjer að gefa út svo mikið af seðlum. Það ætti að vera öllum ljóst. (Steingrímur Jónsson: Hvaða blað var það?) Jeg man ekki betur en það stæði í Ísafold og einn af fjármálamönnum okkar undir því.

Hvar eru þessir seðlar nú? Í útibúum bankans? Að sumu leyti þar og að sumu leyti komnir í aðrar peningastofnanir.

Hvað því viðvíkur, að þörf sje fyrir meiri gjaldmiðil meðan á stríðinu stendur, þá held jeg það sje alveg rangt. Allir þeir seðlar, sem hjer eru nú, verða hjer kyrrir meðan stríðið stendur. Og að menn geymi peninga, held jeg að engin ástæða sje til að ætla.

Eitt atriði vil jeg benda á. Það var ekki rjett hjá hv. 3. kgk. (Stgr. J.), að aukning seðlaútgáfurjettar Íslandsbanka hefði eigi verið bundin því skilyrði í hv. Nd., að skipulagi bankans yrði jafnframt breytt. Það var einmitt tekið skýrt fram þar, að til þess væri ætlast, og fyrir þá sök hygg jeg að margir hafi þar greitt frv. atkv.

Það er að vísu kveðið svo á í frv., að hinn aukni seðlaútgáfurjettur sje að eins veittur til eins árs. En þeir, sem greiddu frv. atkvæði í hv. Nd., hafa naumast gjört sjer nógu ljósa grein fyrir því, að þessi rjettur verður varla á sómasamlegan hátt tekinn af bankanum, ef honum á annað borð er veittur hann. Og þeir, sem vilja breyta fyrirkomulagi bankans, mega ekki láta tækifærið ganga úr greipum sjer, heldur binda aukning seðlaútgáfurjettarins því skilyrði, að bankanum sje breytt á þann veg sem þeir óska; annars er hætt við, að torvelt verði að fá komið á nokkurri breytingu, er að verulegu gagni má verða.

Ef þörf er á auknum gjaldmiðli hjer í landi, þá sýnist rjettast að landsstjórnin gefi hann út sjálf, og getur hún svo látið bankana fá þennan gjaldmiðil gegn nægri tryggingu. Það er miklu rjettari aðferð en að auka seðlaútgáfurjett Íslandsbanka, sem er privatbanki, án þess að nokkrar nýjar kvaðir fylki.

Jeg greiði óhræddur og hiklaust atkvæði með hinni rökstuddu dagskrá, sem hjer liggur fyrir; því að eins og nú stendur á, tel jeg landsstjórnina hafa fulla heimild til að gefa út gjaldmiðil, ef þörf krefur, og þá er fengið það sama, sem fá átti með seðlaaukningunni.

Jeg tek það fram, að jeg kom með brtt. mínar til að fá svolítið vit í frv., en ekki af því, að jeg fyndi ekki til að breyta þyrfti fyrirkomulagi Íslandsbanka, þótt jeg sæi ekki færi á að koma með tillögur um það. Hv. Nd. hefir sýnt það með meðferð sinni á málinu, að hún hefir og fundið til þessarar þarfar.

Jeg ráðlegg hv. d. að samþykkja hina rökstuddu dagskrá. Ef Íslandsbanki vill fá aukinn seðlaútgáfurjett, þá verður hann að ganga að breytingum á stjórn sinni og skipulagi. Þess þarf að gæta, að láta það tvent verða samferða.