29.07.1914
Efri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

7. mál, girðingar

Framsögumaður (Guðm. Ólafsson) :

Svo sem tekið er fram í nefndarálitinu, lítur nefndin svo á, sem þetta frumvarp sje ekki til bóta. Flestar breytingarnar í 1, málsgrein 1. gr. eru að eins orðabreytingar, og virðast þær ekki heppilegar. Jeg get t. d. ekki sjeð, að „landeigandi“ sje betra orð en jarðeigandi, enda er orðið jarðeigandi líka viðhaft í frv. Þar stendur og „að leggja á mörkum löggarð úr vír“ fyrir að girða á mörkum samkvæmt lögum o. s. frv. Að öðru leyti get jeg vísað til nefndarálitsins. Það er mjög varhugavert að nema. úr lögum ákvæðið um hámark endurgreiðsluskyldu á girðingarkostnaði, þar sem sá, sem á hlut að máli, verður að greiða þann kostnað, hvort sem honum er ljúft eða leitt, og hvort sem hann er fær um að greiða hann eða ekki. — Þá er og ákvæðið um skyldu ábúanda til þess. að halda við girðingu ekki heppilegt. Á ábúandinn að kosta viðhaldið að öllu leyti og borga þar á ofan árlega 2% af girðingarkostnaði, ef sá, er býr á landinu hinum megin við girðinguna, á ábúðarjörð sina, en vanrækir viðhaldið að nokkru eða. öllu leyti? Það væri sannarlega ranglátt,. en frumvarpið ákveður ekkert um það. — Ekki getur nefndin heldur fallist á, að nauðsyn beri til að breyta ákvæðunum um. gjaldskyldu á girðingarkostnaði, þar sem kauptún eiga hlut að máli. Breytingar frumvarpsins eru þar tæpast til bóta, enda fyrirmæli núgildandi laga fulltryggileg fyrir ábúanda. — 2. gr. frumvarpsins fer fram á, að við 9. gr. girðingarlaganna bætist svo hljóðandi grein: „Hverjum þeim,. er þykir rjetti sínum hallað af úttektarmönnum, þá er mat fer fram á girðing eða girðingarkostnaði, er heimilt að krefjast yfirúttektar. Fer um þá úttekt svo sem fyrir er mælt um yfirúttekt í lögum um bygging, ábúð og úttekt jarða“. En svo sem getið er um í nefndarálitinu, fer þessi grein mjög illa sem viðbót við 9. gr. girðingarlaganna, sem er annars efnis. Og þar að auki mun ekki mikil þörf á þessu ákvæði, því að það er mjög sjaldgæft við úttektir jarða, að yfirúttektar sje krafist, og svo mundi að líkindum fara um mat á girðingum. Annars finst mjer frumvarp þetta gott sýnishorn af umbótatilraunum sumra háttvirtra þingmanna á nýjum og óreyndum lagaákvæðum.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vil fyrir hönd nefndarinnar leggja það til, að háttv. deild felli frv.